149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

stuðningur við minkarækt.

[10:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég ákvað að hafa ræðuna skrifaða í dag svo okkur ráðherra lenti ekki saman aftur.

Hæstv. forseti. Þegar best lét skilaði minkarækt yfir 2 milljörðum kr. í útflutningstekjur. Mikil þekking hefur byggst upp, enda hafa íslensk skinn undanfarin tvö til þrjú ár verið í 2.–3. sæti yfir hæsta meðalverð á heimsvísu. Gæðin eru því mikil og eins og aðrir íslenskir dýrastofnar, enn þá a.m.k., er minkastofninn á Íslandi nær sjúkdómalaus og lyfjanotkun nánast engin. Greinin hefur átt í erfiðleikum undanfarin ár vegna offramleiðslu á heimsvísu og þar af leiðandi lækkandi verðs. Undanfarin ár hefur verð skinna verið undir framleiðslukostnaði. Fóður minka er um 90% unnið úr lífrænum úrgangi sem fellur til við matvælaframleiðslu sem annars þyrfti að urða eða brenna. 10.000 tonn hafa verið nýtt í fóður minka, 10.000 tonn sem annast yrði að brenna eða urða með tilheyrandi umhverfisáhrifum.

Ekki má heldur gleyma því að greinin er atvinnuskapandi en tugir starfa eru beint við framleiðsluna. Þá hafa bændur leitað leiða til að nýta hliðarafurðir, t.d. eru ýmis smyrsl nú framleidd úr minkafitu.

Hæstv. forseti. Minkabændur hafa leitað til ríkisstjórnarinnar um aðstoð við að komast út úr þeim tímabundnu erfiðleikum sem greinin glímir við. Á næstu tveimur til þremur vikum þarf að taka ákvörðun um hvort pelsa eigi dýrin, þ.e. slátra þeim. Munu því minkabændur þurfa að taka ákvörðun um rekstur sinn áður en til þess kemur. Minkabændur hafa því margir hverjir tvær til þrjár vikur til að taka ákvörðun um það hvort þeir ætli að halda áfram rekstri sínum eða bregða búi. Það veltur því á aðgerðum næstu daga hvort þeir haldi áfram rekstrinum eða hætti honum, með öllu því tapi fyrir þekkingu og þjóðarbúið sem af því hlýst.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hafa verið teknar ákvarðanir um aðstoð við greinina í þeim tímabundnu erfiðleikum? Ef svo er, getur ráðherra upplýst um helstu aðgerðir? Í ljósi þess skamma tíma sem er til stefnu, hvenær má búast við að útfærslur aðgerða verði kynntar ef einhverjar verða?