149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

varnarmál.

[10:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Svo ég árétti það er ástæðan fyrir því að ég spyr út í svartolíuna sú að í sömu fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að þess skuli sérstaklega gætt að ekkert umhverfisrask verði af æfingunni. Mér finnst þá alveg tilefni til að skoða umhverfisrask skipa sem mögulega brenna svartolíu. Hvað varðar starfsemi Atlantshafsbandalagsins finnst mér munur á því að taka þátt í því á borgaralegum grunni og að hýsa hér hernaðaræfingu, en allt í góðu með það.

Mig langaði samt að spyrja um annan viðburð sem er líka á vegum Atlantshafsbandalagsins sem hefur verið kynntur sem Afvopnunarráðstefna NATO og er á dagskrá síðar í mánuðinum. Ég skil ekki alveg hvers vegna það er kölluð Afvopnunarráðstefna á Íslandi og hvers vegna hæstv. ráðherra hefur ítrekað kallað ráðstefnuna svo. Eftir því sem ég kemst næst er það Gjöreyðingarvopnaráðstefna NATO sem er haldin hér. Ég vil biðja um að talað sé skýrt um það hvað við erum að hýsa og hverju við erum að taka þátt í. Ég vil að athugað sé hvers vegna slíkur misskilningur kom upp og hvernig hin undarlega þýðing á orðunum „Weapons of Mass Destruction“, eða Gjöreyðingarvopnaráðstefna, varð til, en hún er kölluð (Forseti hringir.) Afvopnunarráðstefna bæði í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu og einnig í viðtölum hæstv. forsætisráðherra við fjölmiðla.