149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:50]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst held ég að það sé nauðsynlegt að við höfum í huga að eitt er gjaldmiðill, sem fólk notar í viðskiptum sín á milli, og annað er lögeyrir, þ.e. „legal tender“. Það er t.d. sá gjaldmiðill sem við þurfum að gera upp í við okkar keisara. Keisaranum það sem keisarans er — hann fær lögeyrinn frá okkur. Ég er ekki að tala um að áhrif peningastefnunnar kippist úr sambandi með þeim hætti að hún hverfi, en hún verður öðruvísi. Áskoranir sem við þurfum að mæta í framtíðinni eru ekki bara gagnvart peningastefnunni heldur líka gagnvart því hvernig við ætlum að standa að tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs, t.d. virðisaukaskattinum sem var okkar mikilvægasti tekjustofn. Honum er ógnað. Við þurfum að ræða það. Við leysum það ekki hér norður á Íslandi eingöngu, þetta er alþjóðlegt vandamál sem menn þurfa að fara að takast á við.

Hv. þingmaður kemur hér með margar hugmyndir. Ég ætla ekkert að útiloka þær. En ég tel mikilvægt, þegar menn ræða um það hvernig menn vilja koma krónunni fyrir eða hvað menn vilja gera — jafnvel taka upp evruna sem er lausnarorð sem heyrist hér hjá mörgum — að menn hafi í huga að það er alltaf fórnarkostnaður. Það er engin ein aðferð sem er ókeypis. Ein aðferðin t.d. kallar á það að við verðum að vera tilbúin til að lækka laun hér á Íslandi ef til þarf. Ein aðferðin kallar á það að við þurfum að lækka laun og auka atvinnuleysi, ef við ætlum t.d. að fastbinda gengi krónunnar við einhvern einn gjaldmiðil eða vera í (Forseti hringir.) myntráði o.s.frv., kallar á annars konar aga og aginn verður þá að vera fólginn (Forseti hringir.) í því að við verðum tilbúin að taka ákvörðun um að lækka laun og auka atvinnuleysi.