149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:59]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér líður eins og félagar mínir í efnahags- og viðskiptanefnd nýti sér tækifærið og ætli að yfirheyra mig. [Hlátur í þingsal.] Látum það nú liggja milli hluta.

Nú eigum við eftir að sjá þann ramma sem smíða á utan um þjóðarsjóð. Ef minnið svíkur mig ekki hygg ég að allir þeir flokkar sem eru hér á þingi hafi með einum eða öðrum hætti talað fyrir eða verið með á stefnuskrá sinni einhvers konar þjóðarsjóð síðustu mánuði og misseri og fyrir kosningar. Ég ætla samt ekki að hengja mig upp á að það sé rétt, en a.m.k. gerði Sjálfstæðisflokkurinn það og ég hygg allir ríkisstjórnarflokkarnir.

Ég hef hins vegar ákveðnar efasemdir um réttmæti þess að mynda þjóðarsjóð með þeim hætti sem menn ætla að gera. Kannski munu efasemdir mínar eyðast þegar ég sé hvernig regluverkið á að vera í kringum sjóðinn, hver á að stýra honum og hvaða markmið eru raunverulega með honum. Það er nú þegar verið að taka út úr honum áður en hann er stofnaður, við erum byrjuð að lofa úr honum, þannig að það sé sagt. Allt í lagi, ég er nefnilega fylgjandi því hvernig á að nota þá fjármuni, ekki misskilja mig. En ég er bara þannig gerður og það er lífsviðhorf mitt, þið verðið að reyna að skilja það, félagar mínir í Vinstri grænum, að ég fer alltaf í vörn þegar búnir eru til opinberir sjóðir sem á síðan að afhenda einhverjum embættismönnum eða sérfræðingum til þess að höndla með og eyða úr eða taka inn í sjóðinn eftir því hvernig þeir meta aðstæður. Það kann að vera að lausnin liggi í því að þetta sé hluti af peningastjórnun og þar með á forræði (Forseti hringir.) Seðlabankans.

Hv. þingmaður. Ég ætla (Forseti hringir.) að áskilja mér rétt til þess að hugsa málið betur.