149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi þessa tilraun í Brasilíu sem dæmi um það hvernig menn þar losnuðu við þennan verðbólguvana hjá sér með því að setja upp nýjan gjaldmiðil til hliðar við gamla gjaldmiðilinn sem breyttist aldrei í verði þrátt fyrir að verð á hinum gjaldmiðlinum breyttist dag frá degi. Þegar skipt var um var fólk orðið vant því að egg kostaði einn real eitthvað svoleiðis og það hélst. Á bls. 145 er talað um muninn á því hvernig húsnæðisliðurinn er reiknaður inn í vísitöluna; í Kanada á 25 árum hlaupandi, á 30 árum í Svíþjóð, minnir mig að það sé, og á þremur mánuðum á Íslandi. Það þýðir að allar verðlagsbreytingar koma strax inn í vísitöluna hjá okkur, leggjast þungt á um leið og það breytist eitthvað smávegis og magnar þannig upp allar (Forseti hringir.) breytingar sem verða á markaðnum. Ég velti því einmitt fyrir mér hvort ekki sé vænlegra að fara í svona hlaupandi meðaltal frekar en að reyna að bregðast alveg gríðarlega hratt við uppgangi eða falli.