149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:50]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins varðandi þennan verðbólguvana, skemmtilegt hugtak. Við gætum aðeins leikið okkur með það hugtak. Það er ýmislegt í okkar efnahagslífi sem kallar fram værukærð gagnvart verðbreytingum. Það gegnsýrir okkar hagstjórn að öllu leyti. En ég vil koma hér inn á húsnæðisliðinn. Í mjög góðri skýrslu Gylfa Zoëga, sem hann vann fyrir hæstv. forsætisráðherra, er einmitt komið inn á þetta með húsnæðisliðinn. Það tónar alveg við þær tillögur sem koma fram hér og þann samanburð sem tekinn er hér, við Svíþjóð og Kanada. Ég er sammála hv. þingmanni með það að við þurfum í það minnsta að endurskoða hvernig við reiknum húsnæðiskostnaðinn inn í verðtrygginguna.