149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:15]
Horfa

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir kynninguna hér áðan og öllum sem komið hafa hingað upp fyrir skemmtilegt samtal. Ritið Framtíð íslenskrar peningastefnu er í sjálfu sér prýðilegt innlegg í umræðuna og framlag tveggja Svía frá háskólanum í Lundi vakti sérstaka athygli mína. Þar er valkostum Íslendinga lýst og varpar annar þeirra fram þeirri spurningu hvers vegna Malmö, hvar íbúar eru ámótamargir og á Íslandi, ætti að vera með eigin gjaldmiðil. Fræðimaðurinn kemst að þeirri niðurstöðu að Malmö ætti ekki að vera með eigin gjaldmiðil.

Mér, eins og fleirum sem hafa talað hér, finnst ákveðinn grundvallargalli á skýrslunni, en þar er gengið út frá þeim eina möguleika að krónan verði áfram gjaldmiðill Íslendinga. Eins og hér hefur komið fram er ákveðin gjá á milli þessara skoðana hér í þessum sal. Mér finnst það sérkennileg nálgun í ljósi þess að það er mín skoðun að gjaldmiðillinn sjálfur sé fíllinn í herberginu.

Ég vil hins vegar algjörlega taka það til greina og taka það fram að höfundar leggja sig vel fram um að finna góðar lausnir til að hægt sé halda áfram að vinna með þá örmynt sem íslenska krónan er. Á heildina litið eru þetta góðar tillögur en þær ráðast ekki að rót vandans þó að vissulega væri hægt að vinna að þeim öllum um leið og við tækjum aðra umræðu um það hvort skoða þyrfti aðra valkosti.

Ég leyfi mér að vísa í málsgrein á bls. 36, með leyfi forseta:

„Ísland býr við mörg sérkenni sem ljóst er að gera peningamálastjórnun erfiða. Hagkerfið er agnarsmátt. Útflutningsatvinnuvegir einhæfir og sveiflukenndir. Takmarkaður seljanleiki ríkir á flestum fjármálamörkuðum sem gerir verðmyndun hnökrótta. Myntkerfið er ekki aðeins lítið heldur er mitt á milli tveggja stærstu myntsvæða í heimi — dollars og evru — sem hlýtur að gera sjálfstæða peningamálastjórnun ákaflega erfiða viðfangs.“

Nú er krónan, að því er virðist, að sigla inn í tímabil sem mun að einhverju leyti einkennast af frjálsu falli, við þekkjum það líka, með tilheyrandi verðhækkunum á öllum innfluttum vörum, eins og við þekkjum. Fall krónunnar fer alltaf beint út í verðlagið og neytendur borga.

Með leyfi forseta, þetta hefur verið langur dagur. Mig langar að spyrja alþingismenn eftirfarandi spurningar: Hvað eiga borgirnar Flórens á Ítalíu, Brno í Tékklandi og Las Palmas á Spáni sameiginlegt? Veit það einhver?

Íbúafjöldi þeirra er u.þ.b. sá sami og fjöldi íbúa Íslands. Ég þarf ekki að taka það fram að enginn þeirra er með sinn eigin gjaldmiðil. Gjaldmiðillinn okkar er minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi og hann er einstaklega óstöðugur. Hann tekur reglulega dýfur, bæði vegna áhrifa innan lands og vegna utanaðkomandi áhrifa sem koma sér afar illa fyrir alla sem búa á Íslandi. Krónan sveiflast líka og stendur veik fyrir þegar íslensk stjórnvöld gera mistök og við gerum öll mistök. Með stöðugri gjaldmiðli gætu íslensk heimili sparað sér tugi þúsunda í hverjum mánuði og notið sambærilegra lífskjara og íbúar hinna Norðurlandanna. Við þurfum að tala um fleiri valkosti og hætta að láta almenningi blæða í hvert sinn sem krónan tekur dýfu.

Ríkisstjórn sem stendur vörð um krónuna og neitar að tala um aðra valkosti — mér finnst hún taka stöðu gegn almenningi um leið. Hæstv. ríkisstjórn ræðir gjarnan um mikilvægi stöðugleikans, þar erum við öll sammála. Í þessu samhengi, að laun almennings megi alls ekki hækka, erum við ekki öll sammála. Ef hún stendur svo aðgerðalaus hjá þegar krónan fellur og kjör almennings rýrna þá fellur trúverðugleiki hæstv. ríkisstjórnar um leið.

Stöðugur gjaldmiðill er ekki bara mikilvægur fyrir heimilin í landinu. Stöðugt rekstrarumhverfi er ein mikilvægasta forsenda þess að hægt sé að byggja upp fyrirtæki. Mörg íslensk fyrirtæki hafa þurft að stunda spákaupmennsku á gjaldeyrismarkaði, sem er sannarlega ekki þeirra kjarnastarfsemi, til að tryggja sig gagnvart gjaldeyrissveiflum. Þá standa smærri íslensk fyrirtæki, sem neyðast til að fjármagna sig í gegnum íslenska banka, mun verr en stærri fyrirtæki og fyrirtækjasamsteypur sem flest eru löngu búin að taka upp aðra mynt. Stærri fyrirtæki hafa nefnilega átt kost á því að fjármagna sig í gegnum banka erlendis og fá þar af leiðandi önnur og betri kjör en minni fyrirtæki. Samkeppnisumhverfið er þannig skekkt enda þurfa litlu fyrirtækin að borga álag fyrir gjaldeyrisáhættuna sem fylgir krónunni. Vextir eru verðið sem við borgum fyrir peninga, hvort sem við erum með fyrirtæki sem er að reyna að koma undir sig fótunum eða einstakling sem dreymir um að eignast eigin íbúð og geta loksins komist af leigumarkaði.

Á meðan krónan er sterk, eins og verið hefur undanfarin ár, visna útflutningsgreinarnar hægt og bítandi sem þvert á þorra fólksins í landinu hafa tekjur í erlendri mynt. Á meðan á endalausri rússíbanareið krónunnar stendur er jafnframt mjög erfitt fyrir nýjar útflutningsgreinar að festa sig í sessi. Þetta er svolítið mótsagnakennt eða eins og sagt er, með leyfi forseta: You can't really win.

Árið 2016 gerðu rúmlega 230 íslensk fyrirtæki upp í öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni. Flest voru það félög í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og sum eignarhaldsfélög. Evran var sá gjaldmiðill sem flest þeirra völdu. Í þessum hópi fyrirtækja eru flugfélög, álbræðslur og stór útgerðarfyrirtæki. Og það er vissulega sniðugt hjá þessum fyrirtækjum að gera þetta, fyrst þau geta það, þarna losna þau við sveiflurnar á íslensku krónunni.

Viljum við virkilega hafa það þannig að hagsmunir stórfyrirtækja annars vegar og smærri fyrirtækja og almennings hins vegar fari ekki saman? Það er ekki réttlætanlegt, finnst mér, að þorri íslenskra fyrirtækja og almenningur þurfi að búa við krónuna og fylgifiska hennar, háa vexti og verðtryggingu og reglulegt fall krónu sem fer beinustu leið út í verðlag á nauðsynjavöru, enda erum við mjög háð innflutningi.

Á meðan svo er þá erum við kannski öll á sama bátnum en við erum svo sannarlega ekki að róa honum í sömu átt. Stærri þjóðir með stöðugri gjaldmiðla hafa séð sér hag í aðild að stærri gjaldmiðli. Á Íslandi þrjóskast menn enn við þó að það blasi við að grunnvandi hárra vaxta og verðtryggingar liggi í krónunni. Lausnin virðist liggja í nýjum gjaldmiðli og í því sambandi mæla langflestir sérfræðingar með evru. Það eru nefnilega engar mjúkar lendingar í íslensku efnahagslífi. Gengi krónunnar hefur bein áhrif á hagvöxt, verðbólgu, vexti, skatttekjur ríkisins, kaupmátt og einkaneyslu. Við köllum eftir efnahagslegum stöðugleika þar sem velferð almennings er ekki sett í annað sætið.

Hvers vegna ættu borgirnar Malmö, Flórens, Brno og Las Palmas að vera með sinn eigin gjaldmiðil? Stutta svarið er að þær ættu ekkert að vera með sinn eigin gjaldmiðil. Mér finnst það því umhugsunarvert hvers vegna Ísland, sem er með sama íbúafjölda og þessar ágætu borgir, þarf að vera með sinn eigin gjaldmiðil. Hvaða áhrif hefur það á fullveldi okkar að ræða við myntbandalög?

Mig langar að skora á hæstv. ríkisstjórn að skoða aðra möguleika í gjaldmiðlamálum eins og t.d. var gert í skýrslu Seðlabankans frá árinu 2012, og er í lagi að taka upp aftur og halda áfram með, en ekki ganga út frá þeirri fyrirframgefnu forsendu að krónan sé eina lausnin í peningamálum Íslands. Þá lofa ég að ég skal ekkert ganga út frá þeirri fyrirframgefnu forsendu heldur að evran sé eina lausnin í peningamálum Íslands, þó að mér finnist það vissulega. Ef við værum öll til í að vera með opinn huga held ég að öllum myndi farnast betur.

Ábyrg stjórnun felst m.a. í því að ákveða ekki fyrir fram hver eina rétta lausnin er og setja síðan allan kraft sinn í að sannfæra alla aðra um að það sé eina rétta lausnin. Það væri ábyrgt af hálfu stjórnvalda að vera tilbúin til að leita og læra, hlusta á aðrar hugmyndir en sínar eigin og komast síðan að sameiginlegri niðurstöðu sem væri til hagsbóta fyrir alla, hvort sem er almenning, atvinnulíf eða stjórnvöld. Eitt af okkar stærstu viðfangsefnum er nefnilega að efla traust í samfélaginu; traust á milli stjórnvalda og almennings og traust á milli almennings og atvinnulífs. Til þess að það sé hægt verðum við fyrst að skilja að hagsmunir almennings, atvinnulífs og stjórnvalda þurfa og eiga að fara saman. Við erum öll á sama bátnum og við verðum að róa honum í sömu átt.

Ég tek undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og Þorsteini Víglundssyni, þingið á að taka fleiri valkosti til skoðunar. Við eigum sameiginlega hagsmuni sem samfélag og ég legg til að við setjum þá í forgang og skoðum eitthvað fleira.