149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:43]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir mjög fallega og góða hugvekju. Þetta var mjög áhugavert innlegg inn í þessa umræðu og á nótum sem við ættum kannski oftar að fara út í í umræðum af þessu tagi.

Hv. þingmaður nefndi fyrirkomulag peningakerfisins í Kína. Kína er auðvitað margfalt stærra land en Ísland en býr líkt og Ísland við mikið útflutningshagkerfi og einhverjar lexíur gætum við hugsanlega lært af Kínverjum. Ég hef svolítið lengi fylgst með þróun renminbi-gjaldmiðilsins út af því að það er einmitt áhugavert hvernig Kínverjar hafa hagað peningastefnu sinni. Þeir voru mjög lengi með renminbi fastbundið við bandarískan dollara en hafa að undanförnu verið með flotgengi sem er handstýrt af kínverska seðlabankanum þrátt fyrir að vera í raun alltaf að stabílisera sig á móti blöndu af bandarískum dollara og evru. Nú er tekinn við nýr seðlabankastjóri í Kína sem heitir Yi Gang. Það verður áhugavert að sjá hvernig mál þróast yfir tíma, hvernig hann kemur að málum í stað forvera síns. En mér þótti ástæða til að nefna þetta vegna þess að við eigum auðvitað að líta til allra landa í kringum okkur þegar við ræðum þessi mál. Við eigum að skoða hvernig hægt er að gera hlutina vel og um að gera að læra af sem flestum.