149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er auðvitað gömul saga og ný að þegar rætt er um skýrslu fer umræðan oft í að fjalla um það sem skýrslan fjallar ekki um en sá sem talar hverju sinni hefði viljað að fjallað væri um í henni. Ég held að það sé ekkert út á það að setja, það er bara eðlilegt og ég hef verið í þeim sporum með ýmis mál. En ég ætla nú samt að reyna að halda mig við þessa skýrslu í andsvari mínu.

Hv. þingmaður talaði um að það hefði verið auðvelt síðustu ár að viðhalda verðbólgumarkmiðum en blikur séu á lofti, eða ég skildi það sem svo, og það verði erfiðara á komandi misserum. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að það sé þess vegna jafnvel enn mikilvægara að setja sér verðbólgumarkmið og stefna að þeim, halda í þá átt.

Ég var ekki alveg klár á því hvert hv. þingmaður var að fara með þessum ummælum og vil fá að heyra betur hvort honum finnist ekki mikilvægt að hafa mjög skýr markmið þegar að þessu kemur. Ég skil það sem eitt megininntakið í þessari skýrslu að hafa verðbólgumarkmið.