149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að ég sé alla vega þó nokkru nær því hvað hv. þingmaður átti við með ræðu sinni. Það er allt í lagi ef hv. þingmaður telur aðra leið, eins og ég skildi hann, vera heppilegra hagstjórnartæki en verið er að ræða.

Ég skal alveg viðurkenna að líkt og fleiri þingmenn hafa komið inn á er peningastefna ekki ástæðan fyrir því að ég fór út í pólitík til að byrja með en hún er vissulega eitt af því sem maður þarf að kafa ofan í og reyna að setja sig inn í. Þó svo að maður bregði fyrir sig öðrum atriðum í grunninn þá hangir það auðvitað á því hvernig til tekst við hagstjórnina hvernig hægt er að gera ýmislegt annað í samfélaginu.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann út í atriði sem ég held að hafi ekki mikið verið rætt í dag en það er tillaga tíu í skýrslunni, um að Seðlabankinn stuðli að aukinni fræðslu um peningastefnu og gildi verðbólgumarkmiðs til þess að auka skilning almennings. Bent er á reynslu frá Nýja-Sjálandi í þeim efnum og hvernig þar er staðið að því. Mig langar að (Forseti hringir.) spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að það myndi örugglega bæta allar umræður (Forseti hringir.) á Alþingi í framtíðinni ef við myndum (Forseti hringir.) gera það atriði að einhverju stóru sem við tækjum á.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir hv. þingmenn á tímamörk.)