149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning. Ég þakka fyrir.

Aðeins að fyrri hluta spurningarinnar, hvort ég telji aðrar leiðir heppilegri. Eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom að áðan erum við ekki sérfræðingar í öllu og getum einfaldlega ekki verið það, þetta er svo rosalega fjölbreyttur vettvangur. Við verðum því að treysta á álit sérfræðinga, sem fara ekki yfir alla möguleika.

Á ég að segja að aðrir möguleikar séu betri? Ég get það á þann hátt, eins og ég nefndi áðan, að segja að þrátt fyrir að við eigum að kunna á það peningastefnukerfi sem við erum í núna getum við ekki komið í veg fyrir gallana sem eru til. Ég held að mjög eðlilegt væri fyrir okkur þingmenn að við fengjum alla vega greiningar á hinum valkostunum, svo að við gætum tekið upplýsta afstöðu um þá.

Óháð því hvaða peningastefnu við veljum væri tillaga tíu, fræðsla, að sjálfsögðu mjög góð hugmynd. Það þarf bæði fræðslu um núverandi peningastefnu og um kosti og galla annarra peningastefna því að ef aðstæður breytast, t.d. ef ný atvinnugrein verður allt í einu stærst á fjórum, fimm árum, getur það breytt forsendum þess að við höfum núverandi peningastefnu og við skiptum yfir í aðra.

Ef við værum með slíka fræðslu og greiningar jafnóðum hefðum við forsendur til að segja: Allt í lagi, nú skiptum við um stefnu því að aðstæður eru allt aðrar núna en þær voru fyrir fimm árum þegar þessi peningastefna virkaði mjög vel.