149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Bara til að undirstrika það: Ef við ætlum að vera í óbreyttu ástandi þá styðjum við það að tekið verði sérstaklega á húsnæðisliðnum í verðtryggingunni. Við styðjum að það verði sérstaklega skoðað. Ég er nefnilega algjörlega á öndverðum meiði við hv. þingmann því að ég hef trúað á það, og það sýnir sig í gegnum söguna, að hvert það skref, og alltaf var talað um að nú væri Ísland að afsala sér fullveldinu, sem við Íslendingar tókum inn í dýpri alþjóðasamvinnu hvort sem það heitir NATO, Atlantshafsbandalagið, EFTA á sínum tíma, 1970, eða síðar með inngöngunni í Evrópska efnahagssvæðið, 1994, formlega, þá vorum við alltaf að styrkja fullveldið okkar með aukinni alþjóðasamvinnu.

Við urðum ekki veikari, við urðum sterkari í samvinnu þjóða. Við þurfum einmitt að fara að taka hér í alvöru Evrópuumræðu og Evrópusambandsumræðu, því að þetta er auðvitað nátengt. Það sem skiptir máli núna er hvernig við horfum til Evrópusambandsins.

Ég horfi á þetta sem samvinnu. Bretar eru alveg fullfærir um að reyna að moka sig sjálfir út úr skítnum því að ekki var sagt satt fyrir kosningarnar um Brexit. Var sagt satt þegar menn töluðu um að þeir fengju bara kviss búmm bang einhverjar 450 milljónir breskra punda árlega sem þeir hafi sett inn í Evrópusambandið? Það færi bara beint inn í heilbrigðiskerfið? Að sjálfsögðu ekki. Það viðurkenna allir í dag að ekki var farið rétt með. Fyrir Breta að fara út úr Evrópusambandinu er bara sjálfsagt mál. Ef þeir vilja ekki fá neinn samning fá þeir engan samning og verða bara að taka afleiðingum gjörða sinna. Mér finnst það ósköp einfalt.

Hitt er síðan um Evrópusambandið, hvert er hlutverk þess? Í dag þegar maður heyrir popúlistaflokka úti um allan heim, ekki síst í Evrópu, vera að fara af stað með ákveðna þjóðernishyggju, þá megum við aldrei í þágu markaðar, í þágu þjóða, þágu samfélaga, neita að horfast í augu við það hvað friður í Evrópu skiptir okkur miklu máli. Friður er besta vopnið fyrir okkur til að byggja upp (Forseti hringir.) mannvænt samfélag, markaðssinnað samfélag. Það er þangað sem ég vil taka umræðuna um Evrópusambandið.