149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:48]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek eftir því að hv. þingmaður víkur ekki orði að því sem ég sagði m.a. um Grikkland. Grikkland er lítið ríki í Evrópusambandinu. Ég fór í sem allra stystu máli yfir meðferðina á Grikklandi sem rataði í mikil vandræði, land sem á sér virðulega sögu. Það sér ekki fyrir endann á því. Það mætti hafa uppi langar tölur um það hversu illa er komið fyrir því landi og hversu illa það hefur verið leikið.

Heldur hv. þingmaður að við ættum von á betri meðferð innan Evrópusambandsins en það hefur sýnt Grikklandi?

Ég leyfi mér að undrast þetta. Ég undrast það líka að rætt skuli vera um það eins og það sé innan seilingar að við getum gengið þangað inn. Það er bara ekkert á dagskrá hjá Evrópusambandinu miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja.

Ég tek líka eftir því að hv. þingmaður víkur ekki orði að því sem ég nefndi, hvernig okkur hefði reitt af í hruninu ef við hefðum verið aðilar að Evrópusambandinu. Þessi málflutningur er því frekar sérkennilegur, verð ég að leyfa mér að segja.

En hv. þingmanni er auðvitað frjálst að halda þessu uppi. Ég ætla samt að nota tækifærið og þakka henni fyrir yfirlýsingu hennar um húsnæðisliðinn. Ég ætla að leyfa mér að vonast til þess að henni fylgi þá að flokkur hv. þingmanns láti sig ekki hverfa svo gjörsamlega úr sölum Alþingis þegar þau mál eru uppi, nema þá helst til að andmæla þeim sem eru að reyna hér að berjast í þágu heimila og atvinnufyrirtækja landsins til að losna við þessa verðtryggingu.