149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er ekki ljóst hvort um hafi verið að ræða beina spurningu í andsvarinu en hv. þingmaður vísar í það að nefndin sem fékk þetta verkefni hafði ákveðið svigrúm og ákveðinn ramma og vann innan hans. Mér þykir þau hafa gert það vel og fjalla vel um það.

Ég heyrði því fleygt í umræðunni fyrr í dag að áður hefði komið út fjöldi skýrslna, bæði hér á landi og annars staðar, um gildi, kosti og galla mismunandi peningastefna. Þær hygg ég að liggi allar fyrir þó að ég hafi kannski ekki ráðist í að lesa þær allar, enda er þetta fyrsta skýrslan sem kemur til umræðu hér eftir að ég tók sæti á þingi. Í mínum huga er þetta ekki jafnflókið en ég ber virðingu fyrir því að hv. þingmaður kunni að hafa aðra skoðun á því.

Það er farið ágætlega yfir kosti og galla mismunandi leiða. Það sem ég benti á, sem eru í rauninni stóru skilaboðin í skýrslunni, er að fylgja þarf þeim leikreglum sem tilheyra viðkomandi leik, viðkomandi aðferðafræði. Það eru stóru skilaboðin til okkar.

Svo má líka alveg velta því fyrir sér að í ljósi þess að við Íslendingar stöndum býsna vel í nánast öllum alþjóðlegum samanburði, þrátt fyrir að við hefðum örugglega getað farið mun betur að ráði okkar á mörgum sviðum, er kannski hálfósanngjarnt þegar við förum í þá umræðu að hér sé allt á hvínandi kúpunni og við kunnum ekki neitt og fylgjum ekki neinu. Við eru samt ein af ríkustu þjóðum heims og höfum það heilt yfir mjög gott.