149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[19:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu mikið en mig langar samt sem áður að koma því á framfæri að það er í samræmi við stefnu okkar í Samfylkingunni að stytta vinnuvikuna. Það má vera að það sé eðlilegri leið að um það sé samið á vinnumarkaði, en alla vega er mikilvægt að stytta vinnuvikuna.

Ég horfi fyrst og fremst á málið út frá hagsmunum barna og forvarnargildi þess, að tími með fjölskyldunni og tími barna með fullorðnum sé meiri. Ég tek undir það sem stendur í frumvarpinu að styttri vinnuvika muni bæta lífsgæði en ekki draga úr framleiðni.