149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

birting upplýsinga.

[13:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir alþingiskosningar 2016 lá fyrir fjármálaráðherra skýrsla um eignir Íslendinga í aflandssvæðum. Með öðrum orðum hvað Íslendingar áttu mikið í skattaskjólum. Sú skýrsla var ekki birt fyrr en eftir kosningar, þrátt fyrir að augljóst væri að skýrslan átti erindi til almennings fyrir kosningar. Augljóst öllum sem vilja draga hlutlausa ályktun í því máli og augljóst samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis, er ekki ágreiningur um að þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunni vörðuðu almannahag og þá bæði um umfang þeirrar starfsemi sem þar er lýst og þær lagareglur sem þar koma við sögu.

Í kjölfarið spyr ég ráðherra hvenær fram hafi farið mat á því hvort efni skýrslunnar varðaði almannahag, sem bæri þá að birta samkvæmt siðareglum ráðherra.

Svar barst 28. mars 2018, með leyfi forseta:

„Skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum var unnin að frumkvæði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Birting hennar var því algjörlega án utanaðkomandi kvaða eða mats á því hvort þær ættu við samkvæmt siðareglum.“

Það er sem sagt augljóst að það fór ekki neitt formlegt mat fram á því hvort efni skýrslunnar varðaði almannahag.

Í sjónvarpsviðtali spurði fréttamaður, með leyfi forseta:

„Átti skýrslan ekki mikilvægt erindi inn í umræðuna í aðdraganda kosninganna?“

Þar svarar fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Við eigum ekki endilega að setja mál eins og þetta ávallt í kosningasamhengi.“

Nú, tilefni skyndikosninganna árið 2016 voru uppljóstranir um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Spurning mín til ráðherra er einföld og óháð því dæmi sem hér er rakið. Hversu alvarlegt brot er það þegar ráðherra leynir almenning upplýsingum um tilefni kosninga fyrir kosningar? Verður það ekki einmitt alvarlegra að leyna Alþingi og almenning upplýsingum út af kosningasamhengi?