149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Svo förum við í hina áttina líka og látum sveitarfélögin fá t.d. NPA og fjármögnum frá hinu opinbera 25% af þeim samningum en bara í svona fjögur ár í viðbót. Svo þarf sveitarstjórnarstigið að vera á eigin vegum með það. Þetta fer nefnilega í báðar áttir.

Það sem a.m.k. Píratar leggja til að miklu leyti hvað varðar sveitarstjórnarstigið er ákveðið fjárhagslegt sjálfstæði. Þar er hlutdeild í virðisaukaskattinum þar sem varan er, þ.e. að sá virðisaukaskattur sem verður til þegar ferðamaðurinn fer í gegnum sveitarfélögin, verslar í kjörbúðinni eða kaupir sér mat á veitingastaðnum, verði eftir í sveitarfélaginu, sveitarfélagið hafi sitt útsvar af virðisaukaskattinum, tekjuskatti fyrirtækjanna og fjármagnstekjuskattinum þar sem þjónustan verður til. Þetta er algjört lykilatriði í að ná þessum grunni sem þarf fyrir sveitarfélög til að vera fjárhagslega sjálfstæð. Þá geta þau mun auðveldlegar sameinast því að eitt af því sem við vitum að hefur verið vandamál í sameiningunni er ákveðið misvægi á milli auðlinda tveggja sveitarfélaga sem vilja sameinast, annað er mjög ríkt og hitt ekki endilega og það verður togstreita um hvort á að halda þeim auðlindum sem voru áður í öðru sveitarfélaginu en erfitt upp á sameiningu að gera að meta hvort eigi að fá hvað. Einhver heldur, einhver sleppir. Það stendur öllum fyrir þrifum þannig að við verðum að byggja undirstöðurnar fyrst svo við séum a.m.k. að ræða á jafningjagrundvelli.