149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að gera tekjustofna sveitarfélaganna að umtalsefni í seinni ræðu. Ég held að það sé alveg augljóst að það þurfi að breikka tekjustofna sveitarfélaganna. Það að sveitarfélög byggi tekjur sínar nær einvörðungu á útsvari og fasteignagjöldum er einfaldlega allt of einhæft og, eins og hefur reyndar verið bent á, alveg einstaklega sveiflukenndir tekjustofnar á móti mjög stöðugum útgjöldum sveitarfélaganna. Við vitum auðvitað að hvort tveggja, fasteignagjöldin og útsvarið, sveiflast mjög mikið eftir stöðunni í efnahagslífinu á hverjum tíma en auðvitað breytast skyldur og útgjöld sveitarfélaganna ekki svo glatt og eru raunar líklegri til að vaxa á tímum kreppu, þ.e. á sama tíma og tekjur eru að dragast saman.

Ég held að það sé alveg augljóst að tengja þurfi hagsmuni sveitarfélaganna betur við vöxt og viðgang atvinnulífs á svæðinu. Þá má nefna sjávarútveg og ferðaþjónustu sem dæmi og væri rakið í okkar huga í Viðreisn að tengja t.d. við auðlindagjöld þannig að sveitarfélög njóti góðs af veiðigjöldum og af væntanlegum auðlindagjöldum í orkugeiranum þar sem er einmitt mjög mikið vandamál hversu lítil dreifing er á tekjum sveitarfélaganna sjálfra í uppbyggingu í orkufrekum framkvæmdum á landsbyggðinni. Síðast en ekki síst er það í ferðaþjónustunni þar sem við sjáum að sveitarfélög verða oft og tíðum fyrir verulegum útgjöldum við uppbyggingu innviða en njóta alls ekki góðs í tekjum af þeirri þróun þar sem þau njóta í engu hlutdeildar í virðisaukaveltu eða tekjuskatti lögaðila.

Ég held að það sé alveg ljóst þegar við skoðum hvernig við getum eflt sveitarstjórnarstigið að það er með því að gefa þeim breiðari tekjustofna. (Forseti hringir.) Það þarf líka alveg klárlega að styrkja tekjur sveitarfélaganna en þegar við horfum til stærðar sveitarfélaganna sést að það þarf ekki alltaf að knýja allt í gegn með kvöðum. Það má líka vera með jákvæða hvata, t.d. í gegnum jöfnunarsjóðinn, til að ýta undir sameiningu.