149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. ráðherra fór í ræðu sinni yfir þá tilvistarlegu krísu sem hann og embætti hans, vinnumálaráðherra, skulum við segja, lendir í þegar það er metið svo að framlengja þurfi svona ákvæði. Ég hef aðallega samúð — eða við skulum frekar segja skilning á þessari krísu frekar en ég hafi mikla samúð með henni. En það er nú annað.

Það sem mig langar hins vegar að inna ráðherrann eftir er þetta: Nú er uppi í samfélaginu allhávær krafa um styttingu vinnuvikunnar. Maður veltir fyrir sér með hvaða hætti það muni blandast inn í starf þeirra sem vinna við NPA-þjónustu og samninga, vegna þess að þegar og ef — við skulum bara segja: þegar vinnuvikan styttist, við skulum segja að það gerist jafnvel í næstu kjarasamningum, stígum við enn frekar á tær þeirra sem hafa verið að berjast fyrir þessari vinnuvernd, þ.e. að vinnulotur séu ekki of langar. Mig langar aðeins að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort þessum sjónarmiðum hafi verið velt upp í ráðuneytinu og hvort eitthvað sé verið að vinna með það í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.