149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Já, þetta er ákveðin klemma sem við erum í þarna. Ráðherra kom inn á að ákvæðin væru sannarlega til bráðabirgða, giltu til ársloka 2020 svo við skulum gera ráð fyrir að ef samið verður um styttingu vinnuvikunnar verði það nú vonandi fyrir þann tíma.

En þá komum við að hinu málinu. Núna er það þannig að sólarhringsrúlla í umönnunarþjónustu kostar á ársgrundvelli 5,2 störf, ef ég man rétt, eitthvað þar um bil. Við styttingu vinnuvikunnar förum við upp í nærri því sjö störf ef við förum eftir ýtrustu vangaveltum um styttingu vinnuvikunnar. Og einhvern veginn þurfum við sem samfélag að mæta því. En einmitt í þeirri þjónustu sem þarna er um að ræða erum við oft og tíðum háð viðverunni. Við erum háð því að einhver sé á staðnum og það getur aldrei verið minni en einn.

Þá langar mig í seinna andsvari að fá að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort ráðuneytið hafi eitthvað velt því fyrir sér að það geti þurft að taka upp samninginn við sveitarfélögin varðandi prósentuna, þ.e. 25:75 skiptinguna, þegar og ef við förum yfir í það að þurfa jafnvel fleiri starfsmenn til að sinna á grundvelli styttingar vinnuvikunnar.