149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:43]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi koma hér upp eftir þessa umræðu til að fara yfir þau atriði sem komið var inn á, en byrja á að segja að mér finnst þessi umræða mjög góð, hún er þörf og hún er brýn. Hjá öllum ræðumönnum hefur í raun komið fram sannleikskorn og hvernig þessum málum er háttað.

Ég byrja á því sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson kom inn á áðan um samkomulagsatriði, að samkomulag gæti tekist á milli þess sem veitir þjónustuna og þess sem þiggur þjónustuna. Jafnvel þó að þessir tveir einstaklingar næðu samkomulagi sem báðir væru ánægðir með og hugsanlega á þeim nótum sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á áðan og nefndi þar ágætisdæmi um einstakling sem var að sinna slíkri þjónustu og vildi helst sinna henni í tvo sólarhringa, þá er ólöglegt að gera slíkt samkomulag. Jafnvel þó að við öll hér inni værum sammála því að slíkt væri mannsæmandi, bæði fyrir þann sem veitir þjónustuna og hugsanlega betra líka fyrir þann sem þiggur þjónustuna, þá er það einfaldlega ólöglegt. Og það er einnig svo að nágrannalöndin virðast hafa verið að þvælast með þetta líka. Ég hef spurt að því í mínu ráðuneyti og á fundum með verkalýðshreyfingunni hvernig þetta sé á Norðurlöndunum. Það koma engin svör. Eitt af því sem er mjög auðvelt að gera í ráðuneytum er að kalla eftir minnisblöðum, en það er bara ekki hægt að fá upplýsingar um hvernig þessu er háttað á Norðurlöndunum vegna þess að þar held ég að menn sjái bara í gegnum fingur sér við því hvernig þetta er gert.

Það er því gríðarlega mikilvægt, svo ég komi aðeins inn á það sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson minntist á í máli sínu og sneri að því að við ætluðum að skipa nefnd, að fram fari samtal vegna þess að við viljum ekki festa einhverjar breytingar í vinnuverndarlöggjöf nema samtal hafi farið fram við alla aðila sem þurfa að koma að því og bendi á að þetta hlýtur að taka enda vegna þess að þetta er bráðabirgðaákvæði. Það er ekki verið að leggja til að þetta sé fest í lög varanlega, slík undanþága, þannig að það getur aldrei komið annað til en að lending komi í þetta.

Af því að hér var talað um í hversu langan tíma undanþágan ætti að vera þá upplýsi ég að þegar var verið að vinna þetta mál upphaflega í ráðuneytinu voru hugmyndir um að hafa hana í þrjú ár. Mér fannst það of langur tími og þess vegna lagði ég til styttingu á því niður í tvö ár. En það er velferðarnefndar að skoða málið í framhaldinu. Og þeirri niðurstöðu sem kemur frá nefndinni mun sá sem hér stendur una og reyna að þrýsta á að unnið verði að málinu á þeim hraða sem niðurstaða verður um.

Hins vegar vil ég ítreka að mér fannst mjög mikilvægt að koma með málið hingað og óska eftir þessari framlengingu vegna þess að það á að vera þannig að við eigum að bera virðingu fyrir vinnuverndarlöggjöfinni og við eigum ekki að víkja frá henni og við eigum heldur ekki að loka augunum fyrir einhverjum atriðum þegar svo er. Þess vegna eigum við að festa það jafnvel þó að það sé í skamman tíma og framlengja þá heimild sem er til staðar.

Ég er mjög ánægður með að bæði verkalýðshreyfingin og Vinnueftirlit ríkisins skyldu gera athugasemdir við þetta vegna þess að það væri mjög óeðlilegt ef þeir hefðu ekki gert það, af því að Vinnueftirliti ríkisins ber að gera athugasemdir við þetta. Ég tek undir með öllum sem hafa tekið til máls, og sem hefur verið rauði þráðurinn hjá þeim, að þetta sé vandmeðfarið mál. Það er enginn vinnustaður sem hægt er að líkja við það að veita notendastýrða persónulega aðstoð. Það er enginn einn. Þetta er mjög sérstök vinna vegna þess að vinnan er lífið sjálft. Vinnan er að sinna einstaklingnum í öllu sínu lífi hvar sem er.

Nú segi ég: Ef við erum að veita slíka þjónustu og hafa þarf vaktaskipti fjórum til fimm sinnum á sólarhring þá er það líka óþægilegt fyrir einstaklinginn sem fær fá þjónustuna. Þetta er því vandmeðfarið mál og það er gríðarlega mikilvægt að þetta samtal fari fram. Ég legg það í hendur velferðarnefndar að meta hversu langan tíma þetta bráðabirgðaákvæði á að gilda. En ég undirstrika það jafnframt að lokum að ég treysti nefndinni mjög vel til þess að fara vel yfir þetta og hvet hana til að kalla eftir því hvernig þessu er háttað á Norðurlöndunum líkt og ráðherra hefur gert. Ég þakka fyrir umræðuna.