149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[16:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um þetta mál. Mig langar til þess að bæta því við umræðuna hérna í lokin að þetta tiltekna mál snýr bara að mögulegri lengd á skuldabréfaútgáfum ríkisins. Hér hafa menn tiltekið mikilvægi þess að farið sé varlega í ríkisfjármálum. Þá verður maður að hafa það með í umræðunni að varðandi skuldaþróun og markmið erum við með lög um opinber fjármálin sem ekki bara setja okkur skuldareglur heldur tryggja að við horfum til fimm ára hverju sinni og leggjum fram áform um það hvernig við sjáum skuldirnar þróast. Skuldastýringin er síðan annað mál.

Með því að við höfum stórbætt alla umgjörð með opinberum fjármálum má við því búast að miklu auðveldara verði að veita stjórnvöldum hvers tíma aðhald. Við stefnum að sjálfbærni í ríkisfjármálunum og lögin um opinber fjármál geyma viðmiðunarreglurnar þar, fyrir utan skuldareglurnar eða fjármálareglurnar.

Þegar menn ræða um mikilvægi þess að fara varlega varðandi skuldsetninguna held ég að sé ágætt að hafa í huga þennan grunn sem er sjálfbær ríkisfjármálastefna, að vera ekki í hallarekstri. Það er engin ástæða til að vera að gefa út skuldabréf nema menn hafi safnað upp svo miklum skuldum að þeir þurfi einhvern veginn að fjármagna þær inn í framtíðina. Við höfum verið að greiða upp skuldir og erum meira að segja komin á þann stað núna að skuldahlutföll ríkisins fara að nálgast þann stað að það fer að verða tímabært fyrir okkur á komandi misserum eða árum a.m.k. að spyrja hvar neðri mörkin séu á þeim útgáfum. Þá er ég að segja: Hvar eru neðri mörkin á því hversu miklum útgáfum ríkið ætlar að halda úti á markaði hverju sinni? Hvar liggja þessi neðri mörk?

Ef ríkið ætlar að vera virkur aðili á markaði og mynda einhvern vaxtafót fyrir stærri fyrirtækin, og þá er ég bæði að horfa á opinbera aðila og einkaaðila, þá eru einhvers staðar neðri mörk varðandi skuldastöðuna sem við þurfum að hafa í huga. Og bara svo það sé alveg á hreinu þá held ég því til haga að við gætum verið með jákvæða nettóstöðu. Við gætum verið búin að greiða í raun og veru niður skuldir okkar þannig að sjóðir væru orðnir stærri en skuldastaðan en við ætluðum engu að síður að halda einhverjum útgáfum lifandi. Það er bara stórkostlegt að við séum að nálgast þá tíma að geta farið að velta svona hlutum fyrir okkur.

Hér kom fram í umræðunni að við erum orðin nettóeigendur, erlenda staðan er orðin jákvæð, hrein erlend staða þjóðarbúsins. Það eru sömuleiðis gríðarleg tímamót. Það að við skulum hér tíu árum eftir þau gríðarlegu áföll sem við lentum í tengslum við fall fjármálafyrirtækjanna vera að nálgast umræðuna með þessum hætti tel ég vera með miklum ólíkindum og til merkis um mikinn árangur sem þessi þjóð hefur náð á einum áratug.

En þrátt fyrir að þetta verði á endanum alltaf ráðandi þættir um skuldamál ríkisins, þ.e. spurningar eins og: Hvernig er ríkið rekið? Hvaða stefnu hafa menn um afgang á ríkisfjármálum? Hvaða langtímaáætlanir hafa verið gerðar um skuldaþróunina? Hvaða áhrif hafa þessir þættir hafa á lánskjörin almennt? þá er engu að síður ástæða til að ræða það sem er tekið upp hér, sem er hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að í framtíðinni fari menn á einhverjum tímapunkti út í of langar útgáfur.

Þá vil ég bara hafa sagt það mjög skýrt, svo það sé skjalfest, að við erum ekki að opna fyrir lengri útgáfur í ríkisútgáfum á skuldabréfum nema menn meti það svo að það sé hagstæðara fyrir ríkissjóð en að vera með 25 ára eða styttri útgáfur.

Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Það er sjálfsagt að veita nefndinni allar frekari upplýsingar, t.d. um þetta samráðsferli sem ég rakti á milli ráðuneytisins og Seðlabankans, og kalla til þá sérfræðinga sem starfa á þessu sviði.