149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[16:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að sporna gegn vímuefnaakstri vegna þess að vímuefni hafa, eða sum vímuefni alla vega, neikvæð áhrif á getu fólks til að aka bíl eða stjórna ökutæki. Það er samt líka þannig að sum efni sem eru notuð sem vímuefni, þótt þau séu kannski ekki strangt til tekið ólögleg, eru líka notuð að læknisráði. Munurinn á lyfi og vímuefni er ekkert endilega rosalega skýr. Vímuefni getur verið lyf og lyf getur verið vímuefni, það er ekki mótsögn þar.

Það sem ég velti fyrir mér, í ljósi þess að norska leiðin var farin, sem ég fagna, er hvort þörf er á því að hafa þessa skilgreiningu í 50. gr. frumvarpsins um að ökumaður teljist vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki ef niðurbrotsefni mælist í blóði yfir höfuð. Það er þar sem ég sé stóra muninn á norsku aðferðinni og þeirri sem við höfum beitt hér, þ.e. að við spyrjum að því í gildandi lögum gagnvart þvagi, og í frumvarpinu gagnvart blóði, hvort niðurbrotsefni séu yfir höfuð í tilteknum vessum. Í norsku leiðinni er spurt hversu mikið. Þá er mælt. Þá eru viðmið sem hægt er að fletta upp, sem Norðmennirnir fara eftir. Ég nefni sem dæmi virka efnið í kannabis, sem ekki er notað í læknisfræðilegum tilgangi á Íslandi, ekki að mér vitandi, alla vega ekki opinberlega. Ég velti fyrir mér hvort yfir höfuð sé þörf á að fara út í sérstakan greinarmun á niðurbrotsefnum ólöglegra vímuefna og viðmiðunarmörkum fyrir lyf sem hafa neikvæð áhrif á akstursgetu óháð því hvort þau séu lögleg eða ólögleg eða hvað eina. Væntanlega snýst þetta um það að fólk sé ekki að keyra undir áhrifum efnanna, en það er væntanlega ekki hlutverk umferðarlaga að gera sérstakan greinarmun þarna á, myndi ég halda.