149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það er svo. Þess vegna er til skilgreining á því hvað er að vera allsgáður undir stýri þegar kemur að áfengi, eina vímuefninu sem hefur heilagan sess í samfélagi okkar og það af menningarlegum ástæðum en ekki líffræðilegum.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni, og ég held að allir hér inni séu sammála því, að auðvitað eigum við að vera allsgáð þegar við keyrum. Við þurfum ekkert að rökræða það. Það liggur fyrir. En hlutverk umferðarlaga er að draga úr hættunni sem ökumenn valda sem aka undir áhrifum einhverra efna, áfengis eða lyfja eða ólöglegra vímuefna eða hvers sem er sem hefur neikvæð áhrif á akstursgetuna. Mér finnst það vera ekki hlutverk umferðarlaga að setja einhverja línu milli efna sem ásættanlegt er að nota og sem ekki er ásættanlegt að nota. Það er að sjálfsögðu verksvið fíkniefna- og vímuefnalöggjafarinnar, sem ég kalla reyndar eftir breytingum á ef út í það er farið og hef gert og mun gera. Mér finnst það annars eðlis en þetta. Markmið umferðarlaga er væntanlega ekki að segja fólki hvað það megi að setja ofan í sig heldur undir hvaða kringumstæðum og undir hvaða áhrifum það má stjórna ökutæki. Það er tvennt ólíkt.

Mér finnst málið ekki það einfalt að maður geti sagt að eitthvert efni sé ólöglegt og annað löglegt. Það er ekki það sem um ræðir.

Ég verð að ítreka spurningu mína: Getur fólk verið með 0,2 prómill af þessu og 1,2 af öðru o.s.frv. og samt verið edrú, samt verið allsgáð undir stýri? Mat löggjafans samkvæmt þessu frumvarpi er að það sé hægt. Fólk getur því verið með einhvers konar efni í líkamanum sem valda vímu og geðveiki og heilsutjóni og dauða og fíkn og hörmungum, eins og áfengi og önnur efni, og samt verið hæft til að stjórna ökutæki. Við setjum alltaf inn undanþáguklausu um áfengi, eins og það sé ægilega friðsamt og (Forseti hringir.) merkilegt vímuefni, sem það er náttúrlega ekki.

Ég verð að spyrja aftur: Eigum við ekki að setja sömu staðla (Forseti hringir.) fyrir vímuefni og vímuefnaakstur (Forseti hringir.) óháð því hvort löglegt eða ólöglegt sé að neyta efnanna? Ég hef ekki tíma til að fara út í tækniatriðin þar en vil spyrja hvort ekki ætti (Forseti hringir.) sama að gilda um öll vímuefni sem hafa neikvæð áhrif á getu fólks til að stjórna ökutæki, óháð því hvort efnið er löglegt eða ekki.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir þingmenn á að virða tímamörk.)