149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegu forseti. Ég held ekki að hægt sé að gera það þannig að einfalt sé. Eina fordæmið sem ég hef um það er frá Noregi. Við lögðum til í þessari skýrslu að sú leið yrði farin sem farin er í frumvarpinu vegna þess að við sáum fyrir okkur það væri miklu einfaldari lausn. Hún myndi laga grunnvandann sem er sá að verið var að dæma saklaust fólk fyrir eitthvað sem það gerði ekki og jafnvel er ekki hægt að slá því algerlega föstu að það verði ekki tilfellið. En alla vega væri einfaldast að ná slíkum árangri að sem mest væri bætt. Ég get bara vísað til gagnanna frá Noregi þar sem þetta er sett upp í ýmis gildi út frá ýmsum efnum. En ég er ekki sérfræðingur í því frekar en mörgu öðru.

Ég geri greinarmun á hinum fullkomna heimi og ófullkomna heiminum. Mér finnst bara rétt að benda á tvískinnunginn í samfélaginu þegar kemur að þessu.

Mér leiðist að tala sérstaklega um eitt vímuefni, en það er bara þannig að eitt vímuefni er sérstaklega í fréttum núna, en í Kanada var verið að heimila sölu og neyslu og guð má vita hvað á kannabisefnum, þannig að samkvæmt gildandi löggjöf í dag er fræðilega séð hægt að fljúga til Kanada, neyta þar alls konar kannabisefna án þess að brjóta nokkur lög, koma hingað heim án þess að brjóta nokkur lög, keyra bíl án þess að brjóta nokkur lög — enn sem komið er, væntanlega þar til einhver kemur og mælir niðurbrotsefnin í þvaginu. Þá er maður allt í einu orðinn sekur um glæp sem maður tekur kannski mjög alvarlega, nefnilega vímuefnaakstur. Sú staða er náttúrlega óþægileg. Það er ekkert víst að við getum endalaust komið í veg fyrir alla slíka möguleika vegna þess að þetta er jú líffræðin, hún er ekki eins milli allra einstaklinga.

Það er ekkert endilega einföld lausn á þessu. Það sem kemur fram í frumvarpinu núna er vissulega stórt skref í rétta átt þannig að ég mun styðja það. En eins og ég sagði áðan held ég að það sé alveg eðlilegt að við endurskoðum þetta síðan aftur eftir 10, 20 ár og veltum fyrir okkur hvaða raunveruleg áhrif þetta hafi haft á (Forseti hringir.) réttarstöðu fólks sem annars er sakað um glæpi sem það hefur ekki framið.