149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[18:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á einni spurningu um sektarheimildir vegna bílaleigubíla. Er samkvæmt frumvarpinu hægt að sekta fólk á bílaleigubílum sem flakkar um og keyrir of hratt eða fer yfir á rauðu ljósi eða eitthvað svoleiðis? Hvað er gert í tilfelli ökumanna þeirra bifreiða? Það er nefnilega sérstaklega fjallað um að hægt sé að rukka eigendur bíla fyrir hluti eins og að fara yfir á rauðu og slíkt, en nær það yfir bílaleigubíla? Og er ekki gengið of langt þarna? Verið er að rukka eigendur bíla fyrir að fara yfir á rauðu eða þá að mynd næst af ökumanni á eftirlitsmyndavél án þess að vitað sé hver ökumaður bílsins er, þ.e. ekki er verið að refsa ökumanninum í því tilviki heldur eiganda bílsins, sem ég skil að sé nauðsynlegt til að ná yfir ökumenn bílaleigubíla sem keyra á ólöglegan máta en eru mögulega yfir línuna. Ég velti fyrir mér hvort einhver greinarmunur sé gerður á því í frumvarpinu, hvort eitthvað slíkt sé að finna þar.

Annars ætla ég að spyrja nokkurra spurninga og fyrst um 41. gr. Þar er undanþága til æfinga og keppni vegna aldurs. Hægt er að fá undanþágu fyrir þann sem hefur ekki náð 18 ára aldri en hún er háð skriflegu samþykki foreldris eða annars forsjármanns. Ég var að velta fyrir mér af hverju það er 18 ára. Mér skilst að það sé í núverandi reglugerð en við fáum hins vegar ökuskírteini 17 ára, af hverju er ekki miðað við það? Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að við eigum að fá aukið sjálfræði fyrir 18 ára aldur, eða eins og ungmenni hafa vit og þroska til.

Farið hefur verið nokkuð yfir 49. gr. Ég kalla eftir heimildum þar að lútandi, eftir rannsóknum á þeim tölum eða prómillum sem farið er í í greininni. Hvers vegna verið er að fara niður í 0,2 prómill? Á hvaða rannsóknarforsendum er það ákveðið?

Í 52. gr. er gefið upp í liðum a, b, c og d að ökumanni vélknúins ökutækis sé skylt að kröfu lögreglu að gangast undir öndunarpróf og láta í té svita- og munnvatnssýni ef:

a. ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn ákvæðum …

b. ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegnum öðrum ákvæðum …

d. ef hann hefur verið stöðvaður af umferðareftirliti.

Mér finnst nauðsynlegt að gera smágreinarmun þarna á, að einhver ástæða sé á bak við það að viðkomandi þurfi að gangast undir öndunarpróf eða aðra sýnatöku, ekki aðeins af því að hann var stöðvaður af handahófi heldur að gefin sé upp ástæða, ef hann keyrði yfir löglegum hámarkshraða eða eitthvað slíkt, ekki bara: Ég var að stoppa þig, hérna er blástursblaðra, gjörðu svo vel og blástu í hana. Það virðist annars aðeins gert ef ástæða er til að ætla brot en í d-lið er allt í einu opin heimild handa lögreglu til að taka hvaða sýni sem hún vill án þess að gefa nokkra ástæðu fyrir því.

Í 59. gr. er talað um ökuskírteini og ökupróf. Í d-lið kemur fram að veita megi þeim ökuskírteini sem hefur fasta búsetu hér á landi. Ég vil fara í aðeins aðra átt en hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir gerði. Ég fór sem skiptinemi til útlanda og þurfti að taka bandarískt ökupróf og fá bandarískt ökuskírteini. Ég velti fyrir mér hvort nemendur sem koma hingað að utan, t.d. frá Bandaríkjunum eða frá löndum sem eru ekki með skilyrði um að taka íslensk ökuskírteini, lendi í vanda, hvort þeir geti einfaldlega ekki fengið ökuskírteini á Íslandi ef þeir hafa ekki fasta búsetu hér eða hvort til sé undanþáguskilyrði í því sem tryggir að t.d. skiptinemar sem eru aðeins hér á landi í eitt ár geti notað þau ökuskírteini sem þeir hafa þegar fengið eða geta þá fengið.

Í 78. gr. er talað um öryggis- og verndarbúnaður við akstur bifhjóls og torfærutækis. Af hverju á bara að vera með hlífðarhjálm en ekki líka í hlífðarfatnaði? Það er oft sagt að ef menn eru aðeins með hlífðarhjálm á stærra bifhjóli og ekki í hlífðarfatnaði sé það eina sem hjálmurinn gerir að gera þá þekkjanleg eftir slysið, en þeir eru ekki endilega á lífi. Það væri áhugavert að heyra af hverju er ekki einnig krafist hlífðarfatnaðar.

Í 95. gr. er vísunin í skráðan eiganda og umráðamann sem ég var búinn að spyrja um.

Síðast en ekki síst er það 102 gr., um sviptingu ökuréttar vegna ölvunar- eða vímuefnaaksturs. Ég velti fyrir mér ef taka á sýni vegna gruns um að ökumaður sé undir áhrifum áfengis eða vímuefna hvort ekki dugi að viðkomandi veiti eina tegund af sýnum eða hvort það þýði mögulega sjálfkrafa sviptingu ökuréttar ef viðkomandi neitar einhverri tegund sýnatöku, t.d. ef hann samþykkir blóðtöku en vill ekki gefa þvagsýni, hvort hann missi þá ökuréttindin eða hvað.

Það er smápúsluspil að fara í gegnum ansi margar greinar frumvarpsins. Við lesturinn vakna nokkrar spurningar sem væri áhugavert að fá að heyra svar við í greiningu ráðuneytisins þegar málið fer til umhverfis- og samgöngunefndar.