149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir kynninguna á frumvarpinu sem nú kemur lítillega breytt aftur til þingsins, en frumvarpið var áður lagt fram á síðasta þingi.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gerðar hafa verið athugasemdir við það eins og það barst þinginu síðastliðið vor. Bárust athugasemdir frá fjórum aðilum, Rauða krossinum, Persónuvernd, umboðsmanni barna og Barnaverndarstofu, held ég, og lítillegar breytingar hafi verið gerðar eftir að þær umsagnir voru ljósar.

Það vekur óneitanlega athygli mína, verð ég að segja, að þrátt fyrir að sérstaklega sé greint frá því í greinargerðinni að Rauði kross Íslands hafi gert nokkrar athugasemdir við tiltekin atriði frumvarpsins, t.d. þar sem samtökin lýstu yfir áhyggjum sínum vegna aukinna heimilda formanns og varaformanns til að úrskurða einir í tilteknum málum, þá virðist engin breyting hafa verið gerð á því ákvæði.

Maður veltir aðeins fyrir sér hvers vegna ekki var tekið neitt tillit til þeirra ábendinga Rauða krossins sem þó eru, verður að segjast, mjög skiljanlegar þar sem Rauði kross Íslands hefur yfir umfangsmikilli þekkingu að ráða í þessum málaflokki. En Rauði krossinn telur að þessi breyting kunni að leiða til óvandaðri málsmeðferðar í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd og að umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi verulega hagsmuni af niðurstöðu mála sinna eins og gefur að skilja. Um er að ræða líf þeirra sjálfra og oft ungra fjölskyldumeðlima að auki. Þess vegna skiptir auðvitað mjög miklu að hvergi skorti á rannsókn málanna.

Um það er rætt og hefur verið rætt að nefndin öll komi að málinu þó að formaður úrskurði einn, en það verður samt að velta því fyrir sér, og ég veit að starfsmenn ráðuneytis hafa verið spurðir að því hvort viðlíka heimild sé í öðrum lögum þar sem sjálfstæðar úrskurðarnefndir starfa, að formenn eða varaformenn úrskurði einir í svo mikilvægum málum. Síðast þegar ég bar upp þá spurningu í þingmannanefnd um málefni útlendinga, sem er að störfum, þá gátu starfsmenn ráðuneytisins ekki svarað þeirri spurningu. Maður veltir því fyrir sér hvort einhver fordæmi séu í stjórnkerfinu fyrir því að einn ákveðinn einstaklingur, formaður eða varaformaður nefndar, geti úrskurðað í svo mikilvægum málum. Við erum að tala um mál er varða framtíð og mögulega líf einstaklinga. Það er ekkert smáræði.

Fleiri atriði í frumvarpinu vekja athygli, og það er kannski það sem sést í 2. gr. varðandi heimild barnaverndaryfirvalda til að koma með ábendingar, fá upplýsingar eða veita upplýsingar þeim aðilum sem taka ákvarðanir um framtíð og líf einstaklinga sem sækja um vernd, að barnaverndaryfirvöld megi veita Útlendingastofnun annars vegar eða kærunefnd útlendingamála hins vegar upplýsingar um ástand og aðbúnað og afdrif barna sem koma hingað í leit að vernd.

Þá langar mig eiginlega helst að velta því upp hvort ekki væri tilefni til þess að bæta við lög um útlendinga sérstöku ákvæði sem tryggja einhvern veginn rétt barna sem leita hingað, hvort það sé ekki tilefni til þess fyrst verið er að fara í breytingar á útlendingalögum, að setja inn sérstakt ákvæði að hlustað sé á ábendingar barnaverndarnefnda þegar vafi leikur á að barn búi við mannsæmandi aðstæður og viðunandi aðstæður, hvort ekki sé tilefni til að við aukum ekki bara við heimildir stjórnvalda til að fá upplýsingar um börnin heldur aukum líka skyldur stjórnvalda til að hlusta á þá aðila sem annast fjölskyldur á flótta, fjölskyldur sem leita hingað, koma hingað í leit að vernd, að við aukum við skýrar lagaheimildir þess efnis að ef ekki sé öruggt að barn sem vísað er frá landinu komist í húsaskjól eða fái viðunandi aðstæður í því ríki sem ýmist er móttökuríki einhvers staðar í Evrópu eða annars staðar, að ef það er ekki öruggt þá eigi íslensk stjórnvöld án undanbragða að tryggja barni mannsæmandi aðbúnað. Af því að ég held að það sé kannski helst það sem við getum lagt til, það eru ekki það mörg börn sem koma hingað til lands.

Langflestir sem koma hingað í leit að vernd eru fullorðnir einstaklingar sem eru einir á ferð. Börnin eru ekki það mörg, en þau koma vissulega, en þau fæðast líka á Íslandi. Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé ekki bara tilefni til þess núna þegar við fjöllum um lögin, verið er að breyta ýmsum ákvæðum, hvort ekki sé einmitt tilefni núna til þess að við setjum skýrt inn í lögin að við munum sýna mannúð í verki, að við munum beita okkar stjórntækjum, sem eru íslensk lög, og veita ungum börnum sem hingað leita verndar, að við munum veita þeim lífsnauðsynlegt skjól.

Ég held að það hljóti að vera meirihlutavilji fyrir því á Alþingi að við förum í einhvers konar aðgerðir hvað þetta varðar af því að bæði íslensk lög og alþjóðlegir samningar sem við höfum undirgengist og erum skuldbundin veita börnum í rauninni þessa vernd. Við getum svo sannarlega veitt þeim þessa vernd af því að við erum rík þjóð og ríkt land.

Ég held og vil mælast til þess við þá sem sitja í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að þetta verði íhugað sérstaklega, að bætt verði í frumvarpið í meðförum þingnefndarinnar að ekki bara fái barnaverndaryfirvöld heimild til að afhenda upplýsingar um bágar aðstæður barna sem hingað eru komin á flótta, heldur beri íslenskum stjórnvöldum beinlínis, sem taka ákvarðanir um afdrif barna sem hingað koma eða fæðast hér en hafa engin réttindi, að hlusta á það sem barnaverndaryfirvöld segja þegar þau lýsa bágum aðbúnaði eða fullkominni óvissu sem íslensk stjórnvöld senda börn í þegar þeim er vísað héðan brott.

Að öðru leyti ætla ég að fylgjast með umræðu um frumvarpið og mun sömuleiðis fylgjast með meðferð þess í þinginu.