149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum sleppa öllum metingi um það hver af þeim tilteknu þremur stofnunum hafi mesta reynsluna, ég er alveg til í það. En það getur ekki verið annað en óumdeilt að Rauði krossinn hefur rosalega mikla reynslu sem er verðmæt til að ná markmiði laganna um mannúðlega og skilvirka meðferð á þeim málum. Það hlýtur að liggja fyrir.

Hæstv. ráðherra nefndi áðan að hægt væri að spyrja Útlendingastofnun um eitthvað. Hæstv. ráðherra bregst eðlilega við áhyggjum Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála. Þegar þær tvær stofnanir fara til ráðuneytisins með einhver vandamál, lagatæknileg eða annars eðlis, bregst ráðherrann við. Mér finnst það eðlilegt verklag. Ef við höfum metnað fyrir málaflokknum hljótum við að vilja bregðast við slíkum ábendingum í samræmi við tilgang og markmið laganna.

En svo kemur umsögn frá Rauða krossinum og ég get ekki undirstrikað nógu mikið að þetta eru mjög hóflegar tillögur. Það er ekki verið að stinga upp á að leggja niður landamærin. Mig langar að nefna dæmi á þeim stutta tíma sem ég hef og það varðar a-lið 6. gr., en þar er fjallað um að við endanlega ákvörðun um brottvísun falli útgefið dvalarleyfi, atvinnuleyfi, ótímabundið dvalarleyfi útlendings úr gildi samkvæmt lögunum og þar er bætt við því að vinnslu óafgreiddra umsókna um dvalarleyfi skuli líka hætt. Þannig er fjallað um það í frumvarpinu. Allt í lagi. Rauði krossinn stingur upp á að bætt sé við „nema mannúðarsjónarmið, friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu eða ríkar sanngirnisástæður leiði til annarrar niðurstöðu.“ Af hverju má sú hóflega tillaga ekki bara vera með með hliðsjón af því að hæstv. dómsmálaráðherra tekur, og það réttilega, mark á Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála? Af hverju má sú hóflega tillaga ekki vera með?

Ég ætla að segja hvernig mér líður með þetta og ég vona að ég sé ekki dónalegur. Mér líður eins og það sé mótþrói gagnvart Rauða krossinum (Forseti hringir.) í meðferð þessa máls. Ég átta mig ekki á því hvers vegna það er. Ég vona auðvitað að ég hafi rangt fyrir mér.