149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[22:46]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega óskaplega gaman þegar þingmenn eru vel sammála og skemmtilega kurteisir hver við annan. Mig langar þó að minna á að það eru raddir sem segja sem svo að skógrækt eigi að tilheyra landbúnaðaráðuneytinu og að algjörlega óþarft sé að vera með sérstofnun þar undir aðra en Skógræktina, það þurfi alls ekki að vera undir sama hatti. Ég er reyndar ósammála, eins og fram kom. Ég held að til þess að samþætta rétta umgengni, við skulum orða það þannig, sjálfbærnisumgengni um landið og þessar auðlindir, að slepptum venjulegum, hefðbundnum bújörðum, sé rétt að það sé á einni hendi. Ég myndi meira að segja ganga enn lengra og telja grunnrannsóknir á lífríki og segjum þá jarðfræði og öðru slíku — ég er raunverulega tala um hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands — sé líka undir þeirri tilteknu auðlindastofnun og sé þá vísindalegi grunnurinn sem starf hennar hvílir á.