149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Kæru þingkonur, til hamingju með daginn. Kennitöluflakk er meinsemd í okkar þjóðfélagi. Flestar þjóðir í kringum okkur hafa brugðist við slíkri háttsemi m.a. með því að slá varnagla við því að helstu eigendur og stjórnendur geti í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar orðið uppvísir að því að keyra fyrirtæki sín ítrekað í þrot.

Það er meginregla félagaréttar í tilviki einkahlutafélaga og hlutafélaga að enginn félagsmanna beri persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Að baki reglunni búa sanngirnisrök og að einstaklingur á að hafa tækifæri til að hefja atvinnurekstur án þess að bera persónulega ábyrgð á skuldbindingum sem af því leiðir. Undanfarin ár hafa margir yfirfært rekstur í hlutafélagaform sem m.a. má þakka tilkomu einkahlutafélaga, skattalegu hagræði svo og tískustraumum.

Skiptar skoðanir eru uppi um ágæti þessarar þróunar en til að byrja með var talið að hún leiddi til aukinnar verðmætasköpunar. Ég hef þó nokkrar efasemdir um það. Nefna mætti í því sambandi áhyggjur mínar af því að ráðandi eigendur og stjórnendur fyrirtækja misnoti aðstöðu sína, innan félaganna eða haldi áfram þátttöku í atvinnulífinu skömmu eftir gjaldþrot þeirra eins og ekkert hafi í skorist, t.d. með þeirri aðferð að flytja eignir hins gjaldþrota félags yfir í nýtt félag en skilja skuldirnar eftir.

Herra forseti. Þess eru dæmi að sami einstaklingur stofni fjölda, jafnvel tugi fyrirtækja og reki í þrot. Sannarlega geta gjaldþrot fyrirtækja átt sér eðlilegar skýringar og þegar svo ber undir verðskulda stjórnendur og eigendur þeirra að ný tækifæri gefist til rekstrar. Yfirvöld verða að hafa heimildir fyrir því að geta synjað félagi skráningu eða afskráð það, ef viðskiptasaga stjórnenda þess eða helstu eigendur gefa tilefni til slíks.

Eðlilegt væri að við skipti á þrotabúum félaga verði skiptastjóra óheimilt að ráðstafa eignum og réttindum búsins, varanlega til stjórnenda og helstu eigenda eða aðila þeim tengdum við þær aðstæður sem hér að framan greinir.