149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Iðnnám á Íslandi á undir högg að sækja og þykir óæðra bóknámi. Þetta kemur fram í könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var árið 2005. Þar kom fram að eingöngu 6% framhaldsskólanema fæddir 1975 höfðu lokið iðnnámi, á móti 50% sem lokið höfðu bóklegu stúdentsnámi. Var þetta afturför frá fyrri skýrslu sömu stofnunar.

Á 35. þingi Iðnnemasambands Íslands var staða iðnmenntunar í framhaldsskólakerfinu sérstaklega í brennidepli. 35. þing Iðnnemasambandsins var haldið í nóvembermánuði 1977, eða 13 árum áður en hv. málshefjandi fæddist. Setningin „auka þarf áherslu á nám í iðn-, verk-, og tæknigreinum“ hefur staðið í stjórnarsáttmálum ríkisstjórna eins langt aftur og ég held að elstu menn muni og ekkert breytist, enn er landlæg skekkja hvað varðar iðnnámið.

Ég held svei mér þá að við stöndum í stað ef við förum ekki bara aftur á bak, hvað varðar iðnnámið. Við virðumst vera föst í einhverju allsherjarsamræmdu ríkisnámi sem boðað er frá einni allsherjarríkisstofnun. Allir skulu settir í sama farið, hvort sem það hentar eða ekki. Bóklegt stúdentspróf virðist vera það sem ríkinu er þóknanlegt og þar erum við einhvern veginn föst.

Ég held að við þurfum að byrja fyrr. Ég held að við þurfum að byrja löngu áður en framhaldsskólanámið hefst. Ég held að við þurfum að auka verulega á kynningu á iðnnámi í grunnskólum og jafnvel leikskólum, hvar börnin okkar dvelja fyrstu 15–16 ár ævinnar. Þar virðumst við vera föst í einhverri einni leið, inni í einhverju einu boxi. Vil ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að horfa þangað í leit að breytingum og framförum.