149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Margar 17. júní ræður hafa verið haldnar til að efla iðn- og starfsnám. Ég vil leyfa mér að fullyrða að sama hvar borið er niður, sama hvaða flokkur á í hlut, vilja allir gera það. Þegar Katrín Jakobsdóttir var menntamálaráðherra efldi hún m.a. Vinnustaðanámssjóðinn og fór af stað með náms- og starfsráðgjöfina. Illugi Gunnarsson efldi enn frekar tengsl skóla og atvinnulífs og mér sýnist hæstv. ráðherra vera mjög stórhuga og á ágætri leið.

Margt gott hefur verið sagt hér að mínu mati en ég vil forgangsraða þremur atriðum: Fjármagn fylgi hverju sinni. Við vitum að kerfið styður ekkert endilega ráðherra líka hverju sinni í því hvernig á að úthluta fjármagni. Það þarf að tryggja að þegar t.d. er sótt um í pípulögnum — þar fjölgar umsóknum — sé ekki verið að hafna umsóknum af því að fjármagn fylgi ekki með inn í skólana. Þetta þarf að tryggja.

Það þarf að endurskipuleggja starfsgreinaráðin. Það er kominn tími til. Að mínu mati eru þau allt of íhaldssöm og það er mikill misskilningur ef menn telja að þau styðji við þær nauðsynlegu breytingar sem við þurfum að fara í með iðn- og starfsnám. Það þarf að stokka upp, þetta er vel meint og það er gríðarlega mikilvægt.

Stúdentsprófið. Að mínu mati þurfum við að hugsa um það sem mér fannst hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir koma inn á, það sem ég hef m.a. líka bent á, að við eigum að hugsa um hvort allir eigi ekki einfaldlega að fá hvítar kollur, hvort allir fái ekki einfaldlega stúdentspróf. Ég er með stúdentspróf af náttúrufræðibraut. Svo gætu menn verið með stúdentspróf af pípulagningabraut, húsameistarabraut eða rafvirkjabraut. Ég held að þetta sé hluti af því að breyta viðhorfum.

Mér finnst fagnaðarefni að sitja í þingsalnum og heyra hvern þingmanninn á fætur öðrum tala hér um það hvernig við eigum að efla iðnnám. Við eigum að gera allt til að styðja stjórnvöld, styðja menntamálaráðherra til að gera þetta, styðja skólana og styðja atvinnulífið. (Forseti hringir.) Við þurfum að opna kerfið. Við þurfum að gera kröfur, en við þurfum að opna kerfið því að það er hægt að gera betur og við eigum að nýta þá samstöðu sem við verðum hér vitni að í dag til að efla iðnnám.