149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

launamunur kynjanna.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Í raun er hreint ótrúlegt að eftir fyrsta kvennafríið, sem haldið var 1975, ári fyrir fæðingarár mitt, séum við enn í þeirri stöðu að ekki sé búið að jafna með öllu launamun kynjanna. Það er í raun alveg ótrúlegt að það hafi tekið 43 ár og að við séum enn ekki komin á lokapunkt.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefnir hér ólíkar aðferðir við að mæla launamun kynjanna. Ég tek ekki undir að þær ólíku aðferðir feli endilega í sér misskilning. Við vitum hins vegar að ólíkir mælikvarðar eru notaðir í umræðu um kynbundinn launamun. Hugtakið „óleiðréttur launamunur“ kynjanna var samkvæmt tölum Hagstofunnar 16% árið 2016. Síðan erum við með það sem við köllum „óskýrðan launamun“, sem er þá leiðréttur launamunur kynjanna, sem var 5% árið 2016. Óleiðrétti munurinn, eða munurinn þegar engar leiðréttingar eru gerðar, byggist þá á tímakaupi fyrir allar greiddar stundir, en óskýrði munurinn er munurinn sem stendur eftir þegar leiðrétt hefur verið fyrir störfum, menntun, aldri, starfsaldri, mannaforráðum — sem sagt ólíkum störfum.

Munurinn á að sjálfsögðu enginn að vera. Við eigum að meta karla og konur til jafns. Það getur bæði snúist um að leiðrétta þann launamun sem við köllum leiðréttan en óskýrðan launamun, sem þýðir í raun mismunandi laun fyrir sama starf. Síðan kallar þetta líka á að við ræðum af hverju karlmenn fá t.d. fremur ýmis hlunnindi í sínum störfum en konur samkvæmt rannsóknum og af hverju við erum til að mynda með fleiri karlmenn en konur sem forstjóra í fyrirtækjum á Íslandi, sem er hluti af hinum óleiðrétta launamun.

Mér finnst hins vegar ekki að við eigum að týna okkur í jafn mikilvægri umræðu, um jafn mikilvægt mál og misrétti kynjanna er, í því að ræða muninn á einstökum (Forseti hringir.) aðferðum og hvaða skilning við höfum á þeim. Þær eru vissulega til staðar en það breytir því ekki að misréttið er til staðar.