149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

hækkun lægstu launa og hækkanir í þjóðfélaginu.

[10:52]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í vikunni útilokaði fjármálaráðherra algjörlega meginkröfu verkalýðshreyfingarinnar um að létta verulega skattbyrði hinna allra lægstu launa. Talaði hann um stórkarlalegar og óraunhæfar yfirlýsingar. Kjaraviðræður eru því komnar í hnút áður en þær hefjast og hefur engri ríkisstjórn tekist það fram til þessa.

Auðvitað gengur ekki að tugprósenta launahækkun fari upp allan launastigann, enda enginn að tala um það, en ég velti fyrir mér af hverju ekki komi til greina að breyta einfaldlega skattbyrðinni á Íslandi. Með því færi ekkert á hvolf eins og sumir óttast. Ætlar forsætisráðherra t.d. að beita sér í alvörunni fyrir hátekjuskatti eins og samráðherra hans nefndi í gær? Undanfarin ár hefur skattbyrði hinna ríku lækkað á sama tíma og skattbyrði hinna fátæku og millistéttarinnar hefur hækkað. Hæstv. forsætisráðherra, af hverju snúum við því ekki við? Af hverju á millistéttin og fátækt fólk að bera eitt ábyrgð á stöðugleikanum? Hvað með forstjórana sem eru með 1–2 milljónir á viku og hækkuðu um eitt stykki ljósmæðralaun á milli mánaða? Hvað með útgerðarmanninn sem gekk út með 22.000 milljónir í vasanum um daginn? Hvað með ríkustu 10% landsmanna sem tóku til sín tæpan helming allra hreinna eigna sem urðu til árið 2016? Af hverju hækkum við ekki skattbyrði á þeim í stað á millitekju- og lágtekjufólki?

Af hverju leggur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur frekar fram fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir 2 milljörðum kr. minna í fjármagnstekjuskatt en áætlunin gerði ráð fyrir? Af hverju er það forgangsmál ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að lækka bankaskattinn um 7 milljarða kr. og lækka veiðigjöldin um 3 milljarða á milli ára? Á sama tíma eru það hins vegar stórkarlalegar yfirlýsingar að (Forseti hringir.) vilja lækka skattbyrði á fátækt fólk. Það er víst dauðasyndin að mati ríkisstjórnarinnar.