149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

hækkun lægstu launa og hækkanir í þjóðfélaginu.

[10:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég var ekki búin að svara öllum þeim spurningum sem hv. þingmaður kom að í fyrri spurningu sinni þannig að ég held að það kalli á lengri tíma.

Ég vil ítreka, fyrir utan það sem ég sagði áðan, að hv. þingmaður ætti líka að fagna þeirri breytingu sem lögð er til í kringum fjárlögin og hún er að viðmiðunarfjárhæðir efra og neðra þreps í skattkerfinu miðist nú við sama mælikvarða. Það er hluti af því sem hefur valdið ákveðnu misgengi í skattheimtu á undanförnum árum og hv. þingmaður ætti sem jafnaðarmaður að fagna því að við séum að gera þá breytingu.

Hv. þingmaður fer svo yfir í gengi krónunnar. Ég saknaði hv. þingmanns í umræðu um peningastefnu fyrir viku þar sem við ræddum einmitt nauðsyn þess að styrkja ramma peningastefnunnar því að stýrivextir eiga ekki að vera eina stjórntækið á peningastefnunni á Íslandi.

Við ræddum þær aðrar leiðir sem eru lagðar til í skýrslu nefndar um endurskoðun peningastefnu, m.a. hvernig eigi að beita þeim fjárstreymistekjum sem við höfum sett í lög á undanförnum árum, hvernig eigi að beita gjaldeyrisinngripum Seðlabankans með það að markmiði að hafa stöðugri gjaldmiðil. (Forseti hringir.) Því miður lúta allir gjaldmiðlar fyrst og fremst hagstjórninni og þar þurfa tækin að vera til staðar, (Forseti hringir.) en því miður eru engar töfralausnir til í gjaldmiðlamálum á Íslandi.