149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:10]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ný skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar er hryllingslestur. Stutta útgáfan er sú að eini möguleiki okkar til að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5°C meðalaukningu á heimsvísu felst í því að hætta að nota jarðefnaeldsneyti eins hratt og hægt er og breyta íslenskum iðnaði þannig að útblæstri koltvísýrings verði hætt. Töluverð föngun kolefnis getur frestað þessari niðurstöðu tímabundið en eingöngu miklar breytingar á forsendum hagkerfisins munu koma í veg fyrir ástand þar sem í besta falli milljónir deyja, þúsundir tegunda þurrkast út og lífvænleiki jarðarinnar verður verulega skaddaður. Við skulum láta versta tilfellið liggja á milli hluta í bili en vísindin eru skýr á því að þetta er umræða upp á líf og dauða fyrir allt mannkynið. Í þeirri fullyrðingu er ekkert óþarfadrama, þetta er blákaldur veruleikinn.

Þegar þessar niðurstöður skoðast í samhengi við loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar kemur glögglega í ljós að áætlunin mun ekki bjarga neinu. Hún var ekki nógu góð áður en þessi skýrsla kom út, núna er hún hlægileg.

Forseti. Ég ætla að nota næstu mínúturnar í að tala svolítið tæknilega um þetta mál vegna þess að það er nauðsynlegt að allur þingheimur kynni sér vel þessa skýrslu og skilji ítarlega hvað við þurfum að gera til að koma í veg fyrir að allt fari í mjög vont ástand þar sem jörðin verður mögulega ekki byggileg mannkyninu.

Í aðgerðaáætluninni eru engin skýr markmið um hversu mikill samdráttur CO2-losunar eigi að fylgja hverri aðgerð. Flestar aðgerðanna snúast bara um ómarkvissa tilfærslu peninga eða áætlunargerð, eins og það eitt muni bjarga einhverju. Losun Íslands er í dag 4,3 milljónir tonna koltvísýrings árlega. Til að ná markmiðum Parísarsamningsins fyrir 2030 þarf CO2-losun að vera komin í rétt um 3 milljónir tonna á ári. Við höfum 12 ár til að draga úr þessari losun eða línulega um 83.000 tonna árlegan samdrátt í losun.

Það er ekki nóg. Til að vera innan 1,5° markanna, samkvæmt skýrslu IPCC, þarf töluvert meiri samdrátt. IPCC mælir með nettónúlllosun fyrir árið 2055 til að haldast innan þolmarka, þ.e. við getum ekki eytt meira en við eigum. Losun okkar þarf að vera réttum megin við núllið fyrir miðja öld, annars horfum við fram á vistfræðilegt gjaldþrot.

Til að ná því þarf línulegan samdrátt um 119.000 tonn á ári. Hvert ár sem við bíðum með að hefjast handa eykur á vandamálið. Markmiðið er sem sagt 119.000 tonna samdráttur á ári, en áætlun ríkisstjórnarinnar er ekki með neinn tölusettan samdrátt. Það á að verja 1,5 milljörðum kr. í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla, það á að gera nýskráningu bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti ólöglega fyrir 2030, það á að verja 4 milljörðum í kolefnisbindingu sem frestar niðurstöðunni en breytir henni ekki.

Við getum varla bundið neitt í dag og jafnvel þótt við gætum gert meira af því getum við ekki bundið koltvísýring endalaust. Þetta ásamt öðrum aðgerðum sem snúast aðallega um rannsóknir gerir samtals 6 milljarða kr., kannski 7, yfir fimm ára tímabil sem þýðir rétt rúmur 1 milljarður kr. á ári. Lausn í loftslagsmálum verður ekki keypt fyrir tæplega 0,1%, og reyndar mun minna en það, af árlegum fjárlögum ríkisins.

En það er hægt að ná markmiðinu og til þess þarf töluvert beittari nálgun. Við þurfum að framleiða töluverðan hluta eldsneytisins sem við notum innan lands með efnaferlum sem ganga út á föngun koltvísýrings frá verksmiðjum og virkjunum. Það er hluti af lausninni. Við getum náð að minnka losun um 230.000 tonn fyrir lok 2021 með góðri fjárfestingu strax. Slík fjárfesting skilar sér til baka inn í þjóðarbúið samstundis með minni kostnaði vegna innflutnings olíu. Lögfesting MARPOL-samningsins svo að skip á íslensku hafsvæði hætti að brenna svartolíu og fari sparlega með eldsneyti myndi jafnvel draga úr 30.000–40.000 tonnum til viðbótar og það væri hægt að færa bann á innflutningi á fólksbílum fram, t.d. til 2025, sem myndi mögulega geta sparað 60.000–110.000 tonn í viðbót. Fullkomin rafbílavæðing er ekki algjörlega raunsæ á litlum sjö árum en með því að bæta verulega í almenningssamgöngur og með öðrum leiðum mætti jafnvel spara 50.000 tonn. En allar þessar tillögur, og þetta er það besta sem ég get fundið út, munu skila 430.000 tonnum sem eru um 10% af markmiðinu og líklega minna en það. Samhliða fjórföldun á fjármagni til skógræktar getum við kannski náð aðeins að fresta vandamálinu.

116.000 tonna samdráttur er of stórt vandamál til að það verði leyst með núverandi áætlun. Við þurfum að ráðast í innréttingar, forseti, við þurfum að gefa Skúla fógeta ekkert eftir. Við þurfum að ráðast í stefnubreytingu hjá ríkinu sem skilar jafn miklum jákvæðum breytingum fyrir þjóðina (Forseti hringir.) og Innréttingarnar gerðu fyrir okkur á 18. öld, en í stað þess að byggja upp verksmiðjuiðnað til heimabrúks á Íslandi þurfum við að búa til (Forseti hringir.) nýjan útflutningsiðnað í þekkingu á því hvernig önnur lönd geta bjargað mannkyninu frá loftslagsvá.