149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[13:09]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér röð af mistökum. Ég vil taka það fram að ég tel stjórnvöld í höfuðatriðum hafa brugðist rétt við eftir hrun þeirrar verksmiðju sem við ræðum hér. Ég vil ræða verksmiðjuna sjálfa. Hún var ekki bara ófullburða heldur var þetta samtíningur tækja og stýrikerfið ónógt. Þetta var eins konar bastarður sem aldrei átti að verða starfhæfur í raun.

Ég vil minna á ónóga kunnáttu í vinnulagi sumra starfsmanna, það kom í ljós, og sífelld vandræði við framleiðsluna sjálfa vegna gallaðs framleiðsluferils. Síðan gallana í reyksíunum og forvörnum vegna reyks. Allt þetta bendir okkur á að það er ekki nóg að hafa eftirlit með sjálfri byggingarstarfseminni heldur þarf að vera tæknilegt hönnunareftirlit innlendra aðila þegar verið er að reisa verksmiðju af þessu tagi. Það er lærdómur.

Ég vil ræða mengunina og minna á hvað átt er við. Það er ekki átt við koldíoxíðið, gróðurhúsalofttegundina, sem er meginefnið í losun frá United Silicon, hún er nógu slæm fyrir sig sem gróðurhúsalofttegund, heldur er átt við aðrar lofttegundir eins og brennisteinsdíoxíð, eins og köfnunarefnisoxíð. Þetta er ekki mjög mikil losun en þó nokkur. Það er átt við rykið og það er átt við þungmálma og, mikilvægast af öllu, lífræn mengunarefni sem við köllum PAH og það er af þeim sem lyktin stafar og reykurinn kemur.

Þetta er ófullkominn bruni í ofni. Þetta er grillreykurinn sem allir vita hvað er óþægilegt að anda að sér. Það er það sem var meginkvörtunarefnið. Þegar við horfum svo á matsskýrsluna sem lögð var fram var hún stórgölluð. Það er auðvitað sjálfsagt mál að fyrir liggi nýtt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, a.m.k. að þessu leyti og jafnvel öðru.

Mig langar líka að ræða í hvað stefnir. Eftir lokun verksmiðjunnar að kröfu Umhverfisstofnunar og svo gjaldþroti sem fylgdi í kjölfar hefur verið reynt af hálfu Arion banka eða Stakkbergs, eins og fyrirtækið heitir, að yfirfara verksmiðjuna og framleiðsluferlið allt, norskir aðilar hafa gert það, og verðmetnar lagfæringar upp á allmarga milljarða króna. Svo á að reyna að lífga verksmiðjuna við. Þá spyr maður: Ef fjárfestar fást til að kaupa líkið, sem er þá e.t.v. hægt að flikka upp á, sem ég stórefast sjálfur um þó að ég hafi ekki sérfræðiþekkingu til að meta það, er spurningin hvort menn vilji lífga líkið við þannig að verksmiðjan fari í gang. Vilja íbúar það? Viljum við þingmenn það og vill ríkisstjórnin það? Það hefur svo sem ekki komið mjög skýrt fram nema hjá einstaka manni hvort svo sé.

Ég vil líka ræða vandkvæðin í skipulagsmálum sem eru augljós. Byggingin er of há miðað við upphaflegar forsendur. Það voru mistök. Byggingin er líka of nálægt byggð sem fékk að þróast of nálægt Helguvíkursvæðinu og það verða líka að teljast mistök. Byggð er þarna í einhvers staðar á milli 1 km og 1,5 km fjarlægð frá verksmiðjunni.

Ég vil líka ræða um næstu skref. Þá er auðvitað augljóst, eins og hefur komið fram, að umhverfis- og skipulagssvið Reykjanesbæjar hefur hafnað beiðni Stakkbergs um að taka skipulags- og matslýsingu til meðferðar og þar með kannski opna fyrir íbúakosningu um framtíð kísilversins. Það tel ég vera jákvæða hugmynd. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég tel þar til annað kemur í ljós, a.m.k. í bili, að kísilver United Silicon taki ekki til starfa. Í staðinn sé unnið að því að leita uppbyggingar í Helguvík, sem er í höfuðatriðum umhverfisvæn og hentar íbúum jafnt sem höfninni.