149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[13:24]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu og skýrslubeiðnina. Hér er svo sem hægt að fara yfir margt og ræða í þessum málum. Ég vil ræða þetta mál út frá almennum vinkli. Það skiptir máli hvernig við horfum á þetta almennt þannig að uppbygging samfélags geti gengið eðlilega fyrir sig, að byggt sé á öruggum gögnum og með gegnsæjum hætti þannig að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir bæði þegar við ákveðum hvernig atvinnustarfsemi við viljum fá, hvernig við viljum útdeila því landi sem við höfum til umráða og hvernig við viljum byggja upp þá starfsemi sem er í samfélagi okkar. Það er mjög mikilvægt fyrir sveitarfélögin að þau hafi öll gögn og upplýsingar til að meta hvert atriði án þess að vera með sérfræðiþekkingu í hverri tegund iðnaðar fyrir sig.

Þetta þurfa líka stofnanir ríkisins, sem bera ábyrgð á þessu, að vita og hafa öll þessi gögn til staðar til þess að geta stillt eftirliti sínu og ráðgjöf og ákvörðunartöku alveg út frá því. Svo skiptir það líka miklu máli fyrir atvinnulífið sem vill nýta þau tækifæri sem eru til og búa til verðmæti, bæði til að fyrirtækin geti gengið og til þess að auka hagvöxt í landinu. Þau verða að hafa einhvern fyrirsjáanleika og geta byggt sig upp án þess að búa við endalausa tortryggni og að þeim sé settur stóllinn fyrir dyrnar án ástæðu.

Það skiptir líka miklu máli fyrir atvinnulífið að fyrirtæki, eins og í þessu tilviki, nái ekki fram að ganga fram með svikum og prettum. Það setur alla aðra í verri stöðu, líka þá sem eru í beinni samkeppni, ef sumir þurfa að fara eftir reglunum og aðrir ekki og einnig verður enn erfiðara og torveldara fyrir þá sem hafa allt sitt á hreinu að byggja upp sína starfsemi og koma sínum atvinnurekstri af stað ef svona gerist.

Ég held að það sem allir geta tekið út úr þessu máli sé lærdómur. Ég fagna því og það er búið að ræða það mikið í þessari umræðu. Það ætla allir að læra af þessu máli og það hjálpar okkur aðeins við að átta okkur á hvar við þurfum að styrkja okkur. Ég held að það sé ákveðin forsenda að ákveða hvaða grunnupplýsingar stjórnvöld, sveitarfélög og atvinnulíf þurfa að sameinast um að sé safnað til þess að sé hægt að nýta það.

Við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd fengum smáinnsýn í starf Veðurstofunnar í morgun þegar við fórum í heimsókn þangað. Þar er t.d. í einni stofnun fullt af grunnupplýsingum sem nýtist á svo marga vegu, t.d. fyrir sveitarfélögin vegna skipulagsvinnu og ákvarðanatöku þeirra og fyrir náttúruvernd til að ákveða hvernig umgangast á landið, og fyrir okkur, stjórnvöld, til þess að átta okkur á því hvaða auðlindir við höfum. Við þurfum þessar upplýsingar fyrir flugið, hvernig það á að haga rekstri sínum og draga úr eldsneytisnotkun, og fyrir virkjanirnar og allt. Þetta eru grunnupplýsingar um veðurfar, sjávarstöðu, raka og vatnasvið. Það er endalaust hægt að telja upp svona upplýsingar bara þarna í einum málaflokki.

Svo eru aðrar rannsóknir sem Matís býr yfir varðandi nýtingu matvæla og annað slíkt. Í Náttúrufræðistofnun er líka fullt af slíkum upplýsingum. Við þurfum að átta okkur á því hvernig við getum safnað þessum upplýsingum markvisst saman og gert þannig úr garði að saman búi stjórnvöld yfir öflugum gagnagrunni og öflugu kerfi sem geta sameinast þegar koma upp svona spurningar eins og um hvaða áhrif svona starfsemi hefur á samfélagið og hvaða áhrif hún muni hafa á náttúruna, hvaða möguleika hún hafi á að lifa í sátt við samfélag og náttúru á þeim stað sem hún er á.

Ég ætla ekki að segja að það sé best að fara að sameina einhverjar stofnanir og gera eitt gímald úr því sem sjái um þetta allt, heldur vil ég tryggja að allir vinni saman, að samtalið sé virkt, það sé skilvirkt og allt það. Við þurfum að nýta allar þær uppsprettur sem við höfum á sem bestan hátt þannig að ekki sé hver að vinna í sínu horni og hver bendi á annan. Eins og margoft hefur komið fram voru allir að gera sitt besta og byggja á þeim upplýsingum sem þeir höfðu á sínum tíma. En þarna voru margir aðilar sem sluppu í gegnum nálaraugað þegar þessi starfsemi fór í gang. Þá á ég við sveitarfélögin sjálf sem gættu ekki nógu vel að og eins kjörna fulltrúa, einnig stofnanir ríkisins á skipulagssviði, á umhverfissviði, mannvirkjasviði og áfram mætti telja. Ég er líka að tala um fjárfestana, þá sem settu fjármagnið sitt í þetta. Það eru kannski þeir sem bera alltaf höfuðábyrgðina þegar upp er staðið. Regluverkið okkar og tækin voru ekki máttugri en svo að verksmiðjan er stopp í dag. Við skulum alla vega þakka fyrir það. Svona fór þrátt fyrir mikla fjárfestingu og mikla hagsmuni, en samt var hægt að stoppa þegar við sáum hvernig í öllu lá.

Hverjir eru það sem bera ábyrgð á því og sitja uppi með svartapétur í dag? Það eru fjárfestarnir. Mér finnst það skipta alveg gríðarlegu máli að það komi fram hér. Við verðum að geta byggt upp traust þannig að fólki líði betur með ákvarðanir sínar í framhaldinu.

Það er það sem við þurfum að fara að vinna út frá núna, það sem við þurfum að nota þessa skýrslu og þessa stöðu í, þ.e. að skoða hvernig við byggjum upp traust, að fólk geti vitað að við höfum þær upplýsingar sem við þurfum til að taka þessar ákvarðanir. Það má ekki vera þannig fyrir íslenskt efnahagslíf, íslenskt atvinnulíf eða íslenskt samfélag, hvernig sem við horfum á það, að vantraustið verði það mikið og að alltaf sé hægt að svara því til að við vitum ekki eitthvað, að gögnin séu ekki til staðar. Við verðum að tryggja að gögnin séu til staðar. Það er ekki nóg að sá efasemdum og vantrausti, að vera tortryggin og segja: Það verður að svara öllum spurningum. Við verðum líka að svara því hvernig við ætlum við að hafa kerfið þannig að það svari spurningunum, þannig að ekki sé allt sett í stopp. Ég held að það sé á ábyrgð okkar sem löggjafa að átta okkur á því og eiga samtal við framkvæmdarvaldið um það hvernig við styrkjum þessar grunnupplýsingar, hvernig við styrkjum þetta ferli þannig að það verði gagnsætt og að til verði sem mestar upplýsingar þannig að hægt sé að gera þetta á sem gegnsæjastan og traustastan hátt án þess að það taki óralangan tíma og við förum út í mikinn kostnað.

Mikið af þeim upplýsingum sem ég er búinn að tala hér ítrekað um, sem gagnast á svo marga vegu, gagnast stjórnvöldum líka, það gagnast atvinnulífinu og sveitarfélögunum. Upplýsingarnar gagnast á svo marga vegu þó að við horfum alltaf á þær sem upplýsingar, eins og t.d. um öll vatnasviðin. Margir sjá þær sem bara upplýsingar sem Landsvirkjun þarf að eiga. Verið er að setja pening til Landsvirkjunar til að safna saman þessum upplýsingum. Þær eru mikilvægar að svo mörgu leyti.

Við búum að þessu í náttúruverndinni eða vatnasviðabúskapnum eða öðrum iðnaði sem vill koma inn seinna. Þetta gagnast líka mikið í vöktun á allri náttúruvá. Mikið af þeim upplýsingum sem Landsvirkjun hefur unnið eða unnið hefur verið á þeirra vegum hefur gagnast okkur gríðarlega í almannavarnamálum, í áhættumati og í skipulagi.

Þessar upplýsingar eru mjög dýrmætar. Ég vil líka benda á að íslenskir vísindamenn og háskólasamfélagið hafa verið gríðarlega öflug við að fá erlenda samstarfsaðila og erlent fjármagn til að taka þátt í þessu með okkur. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að setja þessa vinnu af stað. Þar fáum við tvær krónur fyrir hverja krónu, held ég, sem við fjárfestum í því.