149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[13:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta mál er ein sorgarsaga frá upphafi til enda, eða kannski má ég ekki segja enda, því að þessu er ekki enn lokið. Þetta er saga bæjarfélags í fjárhagslegum vanda og hvernig sá vandi leiðir í rauninni til þessa verkefnis sem er tekið upp af mjög ómálefnalegum ástæðum. Það þurfti að redda einhverju, því var bara reddað, ekki með áli heldur kísli þrátt fyrir að ýmislegt annað mætti skoða, það var heldur engin ástæða til að fara endilega í álframleiðslu eða hvað þá annað því að eins og ég vakti máls á í gær er hvati sveitarfélaga til uppbyggingar á atvinnustarfsemi mjög takmarkaður. Það hjálpar sveitarfélögum upp á þær tekjur sem eru fyrirsjáanlegar og áreiðanlegar að horfa á fjölda íbúa sem borga útsvar eða fjölda fermetra sem annaðhvort fólk býr í eða hýsir atvinnustarfsemi. Á þessum þröngu tekjumöguleikum byggja sveitarfélögin. Það hefur þau áhrif að þegar það á að byggja upp atvinnustarfsemi fyrir sveitarfélögin er það gert á þessum forsendum. Fleira fólk sem borgar tekjuskatt eða fullt af fermetrum, yfirleitt í einhverri stóriðju, sem er skyndiredding á fjármálum sveitarfélaganna. Það eru mýmörg dæmi um þetta víðs vegar um land, svona lausn hefur verið notuð til að redda atvinnuástandinu í sveitarfélögum í staðinn fyrir að fara í miklu fjölbreyttari atvinnuuppbyggingu sem leiðir til þess að ekki fer allt í rúst þegar eitthvert eitt fyrirtæki ákveður að fara annað. Eða eins og í þessu tilviki þegar herinn fer, og eitthvað annað á öðrum stöðum á landinu.

Á þeim tímapunkti þegar tekin var ákvörðun um þessa starfsemi var mörgum mjög ljóst og hefði átt að vera fleirum ljóst að umhverfisáhrif af svona starfsemi eru eitthvað sem við áttum að taka alvarlega. Við hefðum átt að taka það miklu alvarlegar, en einhverra hluta vegna var mjög mikill skortur á slíkri umhverfisvitund í þjóðarbúskapnum. Það er t.d. tekin ákvörðun um uppbyggingu á Bakka. Það var verkefni á svipuðum nótum en er framkvæmt með allri þeirri forsögu sem byggir á Sameinuðu sílikoni, af öllum þeim mistökum sem voru gerð þar.

Við erum einfaldlega föst í þessu takmarkaða fari um fermetra og höfðatölu þegar kemur að atvinnuuppbyggingu nokkurn veginn alls staðar annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að sveitarfélögin fái ekki hlutdeild í útsvari af tekjuskatti fyrirtækja eða útsvar af virðisaukaskatti af þeirri þjónustu og þeim auðlindum sem verða til og eru til í sveitarfélaginu. Ef slíkt útsvar væri til af fjölbreyttari atvinnustarfsemi en þeirri sem byggist á fermetrafjölda, oft fyrir stóriðju, væri miklu meiri hvati til þess, það væru miklu meiri valmöguleikar í boði fyrir sveitarfélög til þess að velja hvers konar starfsemi þau myndu vilja hafa í sínu sveitarfélagi. Við myndum ekki enda yfirleitt með svona mengandi kosti heldur miklu fjölbreyttari og hálaunaðri starfsemi en við fáum núna. Við fáum ekki gylliboð um möguleg hálaunastörf í mengandi stóriðju, heldur getum við fengið raunverulega betur launuð störf í iðnaði sem hefur sýnt sig að virki, t.d. í hugverkaiðnaði eða öðru slíku.

Þetta er búið að vera ljóst í ansi mörg ár, frá því að Montreal-samkomulagið var gert í kringum 1990, kannski aðeins fyrr. Það samkomulag var um að setja hömlur á eyðingu ósonlagsins og á sama tíma var reynt að fá inn líka hömlur á útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það tókst því miður ekki af því að fólk sá ekki eins mikla hættu í gróðurhúsalofttegundum og það sá í eyðingu ósonsins. Það var ekki mikil yfirvofandi hætta, krabbamein o.s.frv., svona hræðslutaktík. Þannig að einhverra hluta vegna tókst ekki að koma gróðurhúsalofttegundum þar inn. Frá þeim tímapunkti hefðum við átt að hugsa miklu meira um umhverfismál en við gerðum og við sjáum afleiðingar þess að hunsa þær viðvörunarbjöllur sem fóru í gang þá og fram að því að við komum að þessu (Forseti hringir.) verkefni. Það er enn að bíta okkur í rassinn.