149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[15:27]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa skýrslu. Forvarnir eiga að vera lykilþáttur í framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar. Byrja þarf á grunninum, börnunum, allt frá tengslamyndun milli ungbarna og foreldra eða annarra umráðamanna til skólagöngu, frá leikskóla og upp í gegnum grunn- og framhaldsskóla. Mikilvægur hlekkur er uppeldisfræðsla fyrir verðandi og nýbakaða foreldra. Mikið og gott eftirlit er með líkamlegri heilsu móður og barns á meðgöngu og við tekur meðgönguvernd þegar barnið er komið í heiminn.

Sálfræði- og félagslegur stuðningur við nýja foreldra er hins vegar af afar skornum skammti. Foreldrafærni getur ráðið úrslitum þegar kemur að því að mynda tengsl við barn sitt. Þegar frávik verður á þessari tengslamyndun aukast líkur á ýmiss konar vanda. Því má færa fyrir því rök að sálfræði- og félagslegur stuðningur við foreldra skili sér og eigi að vera hluti af geðheilbrigðisáætlun. Í 1. lið í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Geðræn vandamál koma oft snemma í ljós og geta haft mikil og langvarandi áhrif á líf fólks. Um helmingur geðraskana er kominn fram á táningsárum og 75% geðraskana eru komnar fram þegar einstaklingar eru á þrítugsaldri. Talið er að einn af hverjum fjórum muni á einhverjum tímapunkti í lífi sínu glíma við geðrænan vanda. Lengi býr að fyrstu gerð og mikilvægt er að hlúa að geðheilbrigði strax í æsku með geðrækt, forvörnum og veitingu gagnreyndrar meðferðar um leið og vanda verður vart.“

Gagnreynt er tískuorðið núna, hæstv. heilbrigðisráðherra.

„Huga þarf sérstaklega að viðkvæmri stöðu barna sem búa við erfiðar aðstæður, þar sem foreldrar glíma við geðrænan vanda og/eða fíknivanda, til að forðast að vandinn flytjist milli kynslóða.“

Jákvæð sjálfsmynd er bæði afburðaforvörn sem og eitt af lykilatriðum í hvers konar uppbyggingarferli manneskjunnar. Einstaklingur með jákvæða sjálfsmynd stendur betur að vígi gagnvart ýmsum frávikum á hinu geðræna sviði. Hana ber því að rækta frá barnæsku.

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðu um þessi mjög svo brýnu mál og hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til allra góðra verka á sviði geðheilbrigðismála, ekki hvað síst úti á landi þar sem aðgangur að slíkri þjónustu er með mjög misjöfnum hætti og víða svo langt frá því að vera boðlegur.

Hæstv. forseti. Hugarafl, ég segi ekki meir. Þjóðarátaks er þörf. Sálfræðiþjónustu, hæstv. heilbrigðisráðherra, undir Sjúkratryggingar Íslands.