149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[15:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Margir hafa komið inn á hvernig geðheilbrigðismálin hafa verið eins og olnbogabarn í kerfinu árum saman og við höfum aldrei veitt þeim þann sess sem eðlilegt væri. Það er kannski hollt að líta aðeins um öxl af því að það er svo örstutt síðan sú stefnumörkun sem skýrslan sem við erum að fjalla um var sett af stað. Það var ekki fyrr en árið 2014, að frumkvæði Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þáverandi þingmanns, sem samþykkt var þingsályktun hér í sal með þverpólitískum stuðningi um að fara af stað í að gera aðgerðaáætlun um geðheilbrigðismál. Hún leit síðan dagsins ljós árið 2016 og við ræðum hana í dag. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði að hér væri eitt af stærstu lýðheilsumálunum á þeim tíma sem við þyrftum að taka á með myndarlegum hætti og það eru aldeilis orð að sönnu.

Mig langar að koma inn á örfá atriði, af því að tíminn er orðinn stuttur í þessum enda umræðunnar. Fyrsta atriðið er varðandi þann vanda sem tekur við þegar fólk útskrifast úr þriðja stigs þjónustu geðheilbrigðiskerfisins. Þá er ég kannski helst að tala um geðdeildirnar og síðan líka fíknimeðferð SÁÁ í tilvikum fólks með fjölþættan vanda. Stjórnendur geðdeildar Landspítalans hafa t.d. bent á að oft sé ekkert sem tekur við eftir að fólk útskrifast þaðan. Því er tjaslað saman og komið á nokkuð rétt ról og svo er það bara sent út og þarf einhvern veginn að spjara sig. Sama gildir með fíklana sem SÁÁ nær að jarðtengja og senda frá sér.

Vandinn er ekki endilega í bráðameðferðinni heldur í framhaldsmeðferðinni, því að það séu einhvers konar áfangaheimili, eða hvað við viljum kalla það, sem taki við og sinni endurhæfingu og séu eftir atvikum búsetuúrræði fyrir fólk í miklum vanda. Þarna þarf að vinna heilmikið starf við að formgera reglur af því að þau úrræði sem við eigum í dag eru alls konar. Það er engin trygging á gæðum í því kerfi. Það er engin trygging á því að náð sé utan um alla hópa sem þurfa að eiga innkomu í svona úrræði. Hér hefur verið nefnt t.d. að ungir fíklar eigi ekki endilega í mörg hús að venda. Konur í neyslu sem glíma jafnframt við geðrænan vanda vantar úrræði. Væntanlega er hægt að telja marga hópa til.

Þetta vandamál endurspeglar það sem er náttúrlega gegnumgangandi í þeirri umræðu allri sem eru sílóin sem eru skortur á samþættingu og samfellu í kerfinu. Við erum með nokkur stór kerfi sem tala ekki nægilega vel saman. Stærst eru kannski heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið og félagsþjónusta sveitarfélaganna, en líka hafa verið nefnd fangelsin, skólarnir og ýmislegt annað. Þetta er ein af stóru áskorununum. Samstarf á milli mismunandi þjónustuveitenda, þjónustustiga, er ekki nógu gott og innan hins opinbera kerfis þarf að rífa niður múra þannig að fólk fái þá þjónustu sem þörf er á.

Svo vil ég rétt í lokin nefna hversu mikilvægt er að styrkja áfram þjónustu í vægari úrræðunum sem (Forseti hringir.) næst notendum. Það styttist í að við náum að fullmanna stöður sérfræðinga í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu en líta þarf til sálfræðiþjónustu í skólunum, framhaldsskólum og háskólum og jafnvel á fyrri (Forseti hringir.) skólastigum. Einnig þarf að jafna aðgengi að þeirri þjónustu og geðheilbrigðisþjónustu almennt á landsvísu. (Forseti hringir.) Þar er sannarlega pottur brotinn.