149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[16:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna sem er afar mikilvæg, þ.e. um framkvæmd fræðslu og hvað gengið hafi best og hvað gengið hafi síður o.s.frv. Mér er ekki kunnugt um að lagt hafi verið sérstakt mat á það nákvæmlega hvort sú þjónusta eða þær upplýsingar sem nú er verið að veita eða sú fræðsla sem nú er í kerfinu hjá okkur teljist fullnægjandi eður ei eða hvort beinlínis þurfi að endurmeta hana og að hvaða leyti sú lagabreyting sem hér er lögð til muni hafa áhrif á þá breytingu.

En hins vegar er undirliggjandi og ítrekað rætt í umræðu um hvort sem er lýðheilsustefnu eða umræðu um kynsjúkdóma eða aðrar þær úttektir og skýrslur sem mér hafa borist á undanförnum mánuðum og misserum, um mikilvægi þess að bæði tryggja öfluga kynfræðslu en ekki síður að bæta þá fræðslu sem fyrir er og í öllu okkar kerfi.

Ég myndi vilja nefna í þessu samhengi að ég held að það sé líka afar mikilvægt að þar sé ekki bara talað um kynfræðslu af hefðbundnum toga heldur ekki síður að við uppfærum umræðuna og fjöllum um það út frá staðalmyndum og mismunandi stöðu kynjanna, klámvæðingu og öðru því sem við þurfum að hafa áhyggjur af varðandi heilbrigð samskipti í nánum samböndum. Það er gríðarlega mikilvægt umfjöllunarefni og mikilvægur þáttur í því að skapa heilbrigt samfélag, ekki síst þegar við sjáum í sífellt ríkari mæli að áföll geta haft áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu síðar á lífsleiðinni.