149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[16:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyni að stikla á stóru í svörum mínum. Í fyrsta lagi: Ekki er gert ráð fyrir því að um fleiri lyf verði að ræða, ekki að um almenna opnun sé að ræða, heldur er það í raun og veru mjög takmarkað leyfi sem hér er verið að fjalla um.

Gert er ráð fyrir að viðkomandi sæki og standist sérstakt fræðilegt og klínískt námskeið um lyfjaávísanir áður en leyfi er veitt.

Verði frumvarpið að lögum geri ég ráð fyrir að ráðuneytið fari þess á leit við embætti landlæknis að gefnir verði út vinnuferlar sem ljósmæður og hjúkrunarfræðingar skuli styðjast við þegar þessum tilteknu getnaðarvarnarlyfjum er ávísað.

Útfærsla að því er varðar fjölda þeirra sem hafi þessa heimild á hverjum stað o.s.frv. yrði þá eftir. Ég geri ráð fyrir því að hv. velferðarnefnd geti líka fjallað um það og muni draga sínar ályktanir eftir að hafa hitt gesti og kallað eftir umsögnum í þessu efni.

Hvað varðar launakjörin treysti ég mér ekki til að fjalla um þau úr ræðustól Alþingis. Það hefur ekki alltaf komið vel út.

Hv. þingmaður spyr hvort þörf sé á fleiri lagabreytingum. Svo er ekki. Þessi lagabreyting er fullnægjandi til að koma þessum breytingum í kring.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka efnislega vel í málið að öðru leyti.