149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umboðsmann Alþingis. Frumvarpið er á þskj. 250, 235. mál þessa þings. Frumvarpið flyt ég fyrir hönd forsætisnefndar Alþingis, en nefndin stendur öll að frumvarpinu ásamt með áheyrnarfulltrúum Viðreisnar og Flokks fólksins.

Tilefni frumvarpsins er að með þingsályktun Alþingis 19. desember 2015 var ríkisstjórninni falið að fullgilda fyrir Íslands hönd valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 18. desember 2002 og undirrituð fyrir Íslands hönd 23. september 2003. Jafnframt fólst í þingsályktun Alþingis undirbúningur að innleiðingu bókunarinnar. Viðbótarbókunin er með vísan til enska heitisins nefnd OPCAT, og er gert ráð fyrir því að fullgilding hennar fari fram þegar frumvarp þetta hefur hlotið afgreiðslu á Alþingi.

Í bókuninni er kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila sem heimsæki reglulega stofnanir og heimili sem vista frelsissvipta einstaklinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að pyndingar eða önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Eftirlitið fer annars vegar fram á vegum alþjóðlegrar nefndar, sem nefnd er undirnefnd í bókuninni, sem heimsækir þau ríki sem fullgilt hafa bókunina og hins vegar eftirlit sem komið er á fót innan hvers aðildarríkis og almennt nefnt er OPCAT-eftirlit. Það er um það sem þetta frumvarp í raun og veru fjallar sérstaklega.

Með frumvarpinu er lagt til að umboðsmaður Alþingis verði sá aðili sem annist OPCAT-eftirlit samkvæmt hinni valfrjálsu bókun og að höfð verði hliðsjón af breytingum sem gerðar voru á lögum um umboðsmann Þjóðþingsins í Danmörku og umboðsmann Stórþingsins í Noregi þegar þessum embættum var falið OPCAT-eftirlit í löndunum. Þannig verði, að norskri fyrirmynd, sérstaklega áréttað að hlutverk umboðsmanns Alþingis verði jafnframt að vera sá aðili sem samkvæmt hinni valfrjálsu bókun Sameinuðu þjóðanna sinni OPCAT-eftirliti hér á landi.

Með frelsissviptingu í bókuninni er átt við hvers konar fangelsun, vistun eða gæslu af hálfu opinberra aðila eða einkaaðila þar sem einstaklingur hefur ekki frelsi til að yfirgefa vistunina vegna úrskurðar, ákvörðunar eða samþykkis dómstóls, stjórnvalds eða annars yfirvalds. Undir þetta geta einnig fallið tilvik þar sem yfirvöld láta frelsissviptinguna átölulausa eða láta hana líðast þrátt fyrir ábendingar um hana. Undir OPCAT-eftirlit getur því fallið nokkur fjöldi stofnana og heimila, svo sem innan réttarvörslukerfisins, staðir á vegum barnaverndaryfirvalda, dvalar- og hjúkrunarheimili, sambýli og önnur sambærileg heimili og búsetuúrræði. Fjöldi stofnana, heimila eða deilda verður þó ekki tæmandi talinn. Þá er fjöldi þeirra sem dvelst á slíkum stöðum einnig mismunandi. Eru þessu öllu gerð nánar skil í greinargerð með frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Samkvæmt gildandi lögum taka starfsheimildir umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, þar með talið stofnana þar sem um frelsissviptingu er eða getur verið að ræða, svo sem fangelsa, dvalarheimila fyrir aldraða og vistheimila fyrir börn sem rekin eru á vegum þeirra. Í lögunum er jafnframt tekið fram að starfssvið umboðsmanns taki einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Dæmi um slíkt er þegar einkaaðili sem rekur hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða og stjórn slíks aðila tekur, í samræmi við 15. gr. laga um málefni aldraðra, ákvörðun um dvöl einstaklings. Á grundvelli gildandi laga um umboðsmann Alþingis væri unnt að fela honum OPCAT-eftirlit með slíkum stofnunum og heimilum. Annað gildir hins vegar um stofnanir og heimili á vegum einkaaðila sem falla ekki undir starfssvið umboðsmanns. Til þess að fela megi umboðsmanni Alþingis OPCAT-eftirlit með slíkum stöðum er lagt til að gerðar verði viðeigandi breytingar á lögunum um umboðsmann Alþingis.

Til samræmis við breytingar á hlutverki umboðsmanns er lagt til að starfssvið hans taki til stofnana á vegum einkaaðila þar sem dvelja einstaklingar sem eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu og frelsissviptingin á sér stoð í fyrirmælum opinberra aðila, að undirlagi þeirra, með samþykki þeirra eða er látin átölulaus af þeirra hálfu. Samhliða þessu er lagt til að starfsheimildum umboðsmanns verði breytt svo að þær taki einnig til einkaaðila þegar um OPCAT-eftirlit er að ræða og þegar sérstaklega standi á geti umboðsmaður leitað aðstoðar lögreglu við öflun upplýsinga og gagna. Þá er áréttað að sú þagnarskylda sem hvílir á umboðsmanni Alþingis og starfsliði hans taki einnig til sérfræðinga sem hann kann að fá til aðstoðar í einstökum málum, samanber lokamálsgrein 7. gr. laga um umboðsmann Alþingis. Þá er lögð til sú breyting á 10. gr. gildandi laga að umboðsmaður geti látið í ljós álit sitt á því hvort atriði sem varða starfsemi stofnana eða heimila, auk atriða sem varða meðferð og aðbúnað þeirra sem á slíkum stöðum dvelja, séu andstæð sjónarmiðum um mannúð og mannvirðingu. Einnig er lagt til að samhliða ársskýrslu sinni geri umboðsmaður grein fyrir OPCAT-eftirliti sínu og að ekki verði lengur krafa um að prenta ársskýrslu umboðsmanns sem honum ber að skila til Alþingis.

Í 7. gr. frumvarpsins er nýmæli um vernd þeirra sem veita umboðsmanni eða undirnefndinni upplýsingar eða greina frá misfellum sem falla undir OPCAT-eftirlitið. Við samningu ákvæðisins var farin sú leið að láta það einnig ná til þeirra sem greina umboðsmanni frá brotum eða misfellum í stjórnsýslu opinberra aðila. Var þá litið til þess að eftirlit umboðsmanns er ekki bundið við þá þætti í starfsemi opinberra aðila sem falla undir OPCAT-eftirlitið og að þær ábendingar og upplýsingar um brot sem einstaklingar koma á framfæri við umboðsmann kunna að lúta að fleiri atriðum en beinlínis varða eftirlit með frelsissviptum samkvæmt OPCAT-bókuninni. Við samningu ákvæðisins var enn fremur farið yfir ábendingar nefndar forsætisráðherra sem skipuð var í apríl 2018 um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Eftir fund með formanni nefndarinnar var það sameiginlegur skilningur á milli nefndar hans og forsætisnefndar að frumvarpið og fyrirhugað frumvarp nefndar sem starfar á vegum forsætisráðherra gætu vel farið saman og myndu raunar vera til þess fallin að styrkja hvort annað.

Loks er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um heimild undirnefndarinnar til aðgangs að stofnunum og heimilum á vegum einkaaðila þar sem dvelja einstaklingar sem geta verið sviptir frelsi sínu og til þess að ræða einslega við starfsmenn og þá sem þar dvelja.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum leggja áherslu á að hér er um að ræða nýtt verkefni sem ákveðið hefur verið að ósk íslenskra stjórnvalda að umboðsmaður sinni til þess að íslenska ríkið geti sinnt alþjóðlegum skuldbindingum sínum samkvæmt OPCAT-bókuninni. Af hálfu forsætisnefndar hefur það verið forsenda í samskiptum þess við dómsmálaráðuneytið að umboðsmanni verði tryggt nauðsynlegt viðbótarfjármagn svo ekki þurfi á nokkurn hátt að draga úr því meginhlutverki hans að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og tryggja rétt borgaranna í samskiptum þeirra við stjórnvöld. Sá viðbótarkostnaður sem leiðir af OPCAT-eftirlitinu verði því ekki lagður á embætti umboðsmanns eða Alþingi.

Hæstv. forseti. Ég hef nú lokið við að greina frá meginefni frumvarpsins og helstu nýmælum þess. Ég legg til að mál þetta gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.