149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:02]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili ekki við hv. þingmann um að það getur verið gott fyrir hvaða hlutafélag sem er að fá fleiri konur inn í stjórn og þess vegna að allir stjórnarmenn séu konur, það getur meira að segja verið, enda er það ákvörðun hluthafa. En látum það liggja á milli hluta. Það er hins vegar alveg greinilegt að flutningsmenn hafa ekki velt því fyrir sér að það er fullkomlega óljóst hvað átt er við með skilgreiningu á fjárhagslegum styrk félagsins. En látum það liggja á milli hluta.

Það sem ég vil fá að spyrja hv. þingmann að er: Hvað er það sem rekur flutningsmenn til að leggja þetta frumvarp fram þegar horft er á 156. gr. hlutafélagalaganna og 130. gr. laga um einkahlutafélög, þar sem segir:

„Sá sem vanrækir tilkynningar til hlutafélagaskrár“ — og þar með um kynjahlutföll um hverjir sitja þar — „samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.“?

Finnst flutningsmönnum þetta ákvæði í 156. gr. hlutafélagalaganna og 130. gr. laga um einkahlutafélög ekki nægjanlegt? Telja þeir að til viðbótar eigi síðan að leggja dagsektir á viðkomandi hlutafélög, allt að 100.000 kr., 700.000 kr. á viku? Að vísu er tekið tillit til einhvers óskýrs atriðis sem heitir fjárhagslegur styrkur sem enginn veit hvað þýðir og hvernig á að skilgreina.

Það er ekki hægt annað en að krefjast þess að þegar flutningsmenn leggja svona fram geti þeir a.m.k. svarað því hvað felst í hinum fjárhagslega styrk. Hvernig er hann skilgreindur? (Forseti hringir.) Af hverju telja þeir að þau ákvæði sem ég hef vitnað til séu ekki nægilega sterk — allt að eins árs fangelsi?