149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:12]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu sem felur það í sér að heimilt verði að beita sektarákvæðum á þá sem uppfylla ekki lög sem þegar eru í gildi. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps og þakka hv. fyrsta flutningsmanni Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir hennar ræðu og að hafa boðið mér að taka þátt í því að flytja þetta mál.

Ég verð samt að viðurkenna að það var ekkert einföld ákvörðun fyrir mig, hvort ég sem þingkona Sjálfstæðisflokksins ætti að taka þátt í flutningi á slíku frumvarpi. Því fannst mér full ástæða til að bíða hér fram eftir kvöldi eftir því að fá að útskýra afstöðu mína til málsins.

Hún er í fyrsta lagi sú að ef við erum með lög í landinu er full ástæða til að í þeim sé jafnframt einhver heimild til að beita viðurlögum ef lögin eru ekki uppfyllt, algerlega óháð því í raun um hvaða lög er að ræða. Í þessu tilfelli erum við að ræða þau lög er lúta að jöfnun kynjanna í stjórnum fyrirtækja.

Það að nýta krafta beggja kynja alls staðar, hvort sem er hér inni á hinu háa Alþingi, í stjórnum fyrirtækja, úti í atvinnulífinu eða hvar sem er, skiptir máli og er mikilvægi fjölbreytileikans margsannað þegar að þessu kemur. Það ætti því að vera sjálfsagður hlutur hjá fyrirtækjum úti á markaði að huga að fjölbreytileikanum þegar kemur að því að skipa í stjórnir. Það eru þeirra hagsmunir. Ég vil geta þess í þessu samhengi að ég var mjög ánægð með auglýsingu sem Samtök atvinnulífsins birtu í gær þar sem rætt var um kvennafrídaginn og um launamun kynjanna. Þau ítrekuðu það að fyrirtæki sem í fyrsta lagi greiddu ekki kynjunum jöfn laun fyrir störf væru að brjóta lög en í öðru lagi væru þau ekki að standa sig í samkeppninni. Ég held að það sama eigi við hér. Það er fyrsta afstaða mín.

Hvernig er það svo framkvæmt að vera með einhver viðurlög? Tillagan í frumvarpinu er um dagsektir og eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fór yfir er hér horft til norsku aðferðarinnar. Mér fannst, og finnst við fyrsta yfirlestur, það algerlega ganga upp en ef á því eru einhverjir meinbugir þarf bara að fara yfir það í framhaldinu. Aftur á móti hefur FKA bent á nauðsyn þess að bregðast við með einhverjum hætti. Hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á það að ríkisskattstjóri eða ársreikningaskrá hefði þegar ákveðnar sektarheimildir ef félög skila til að mynda ekki inn ársreikningum. Þegar þau lög voru sett og gerð var krafa um að félög sendu inn ársreikninga til ársreikningaskrár voru heimtur ekkert sérstaklega góðar til að byrja með. Þar var sett inn sektarákvæði og það hefur haft þau áhrif að nú skila fyrirtækin ársreikningum á réttum tíma, enda er það mikilvægt. Mér finnst algerlega hægt að jafna þetta og geri þá ráð fyrir því að með slíkum sektarákvæðum muni þetta breytast að einhverju leyti.

Félag kvenna í atvinnulífinu hefur líka bent á að það ætti að vera hægur leikur fyrir ársreikningaskrá að fylgjast með þessu. Það virðist ekki vera gert. Ég mun að sjálfsögðu taka það mál upp þegar við förum yfir þetta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, við fáum væntanlega til okkar fulltrúa frá ríkisskattstjóra og ársreikningaskrá, hvernig slíku eftirliti er háttað því að það væri auðvitað sjálfsagt að þetta væri yfirfarið þar. Samkvæmt þeim ábendingum sem við höfum fengið sem stöndum að þessu frumvarpi virðist svo ekki vera.

En að þessu sögðu langar mig aðeins að fara yfir það sem er kannski grunnurinn í þessu frumvarpi, kynjakvótar. Mér finnst náttúrlega algerlega óþolandi að standa hér og ræða jafnréttismál. Mér finnst það óþolandi í ljósi þess að við erum búin að gera það svo áratugum skiptir og maður vill alltaf komast í endamark með málin sín. Við virðumst ekki vera komin þangað enn.

Ég viðurkenni að ég hefði örugglega á árinu 2010, hefði ég setið á þingi þá, verið sammála flokkssystkinum mínum í Sjálfstæðisflokknum sem ekki greiddu atkvæði með þessu frumvarpi á sínum tíma. Þau notuðu þá röksemd, svipað og hv. þm. Óli Björn Kárason fór hér yfir áðan, að þetta snerist um frelsi fyrirtækja, við værum jafnvel að ganga með einhverjum hætti á eignarrétt þeirra með því að setja lög um það hvernig fyrirtæki á markaði ættu að skipa sínar stjórnir. Ég er mjög höll undir þau sjónarmið, ég viðurkenni það fúslega. En svo koma önnur sjónarmið inn í myndina: Mikilvægi þess að við nýtum krafta allra, mikilvægi þess að konur jafnt sem karlar skipi stjórnir fyrirtækja, séu í framkvæmdastjórastörfum og forstjórastörfum innan fyrirtækjanna, séu sem sagt jafnt á við karla með ákveðin völd í atvinnulífinu. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli. Ég er því miður, og ég bara ítreka það, komin á þá skoðun að við þurfum til þess kynjakvóta.

Staðan er sú að þessi lög voru samþykkt árið 2010, þótt þau hafi ekki öðlast gildi fyrr en 2013, og ég þekki ekki til þess að einhver hafi flutt hér frumvarp um að fella þau úr gildi. Sú umræða hefur þá alla vega ekki farið mjög hátt. Ég ímynda mér að margir séu orðnir hallir undir að það þurfi kannski svoleiðis aðgerðir, jafn ömurlega leiðinlegt og það er.

Mig langar líka í þessu sambandi að ræða það að þrátt fyrir að við séum ekki komin í neitt endamark hér búum við á Íslandi við mjög góða hluti í jafnréttismálum miðað við mjög víða annars staðar í heiminum. Við höfum verið til fyrirmyndar í svo mörgu og ég ætla að byrja á að nefna fæðingarorlofið sem ég held að sé stærsta framfaraskrefið í jafnréttismálum sem við höfum stigið hér á þinginu og var það nú mjög umdeilt á sínum tíma. Við búum það vel að við höfum töluvert fram að færa á alþjóðavettvangi þegar kemur að því að ræða jafnréttismál. Þau eru meira að segja einn af okkar hornsteinum í utanríkisstefnu okkar. Við höfum sérstakan sendiherra jafnréttismála og þegar okkar hæstv. utanríkisráðherra fer til útlanda og talar á ráðstefnum er alltaf rætt um jafnréttismál. Þegar erlendir þingmenn koma hingað og heimsækja okkur spyrja þeir okkur iðulega út í jafnréttið: Hvernig hafið þið náð þessum árangri? Ísland er einfaldlega þekkt fyrir að standa mjög framarlega í jafnréttismálum.

Norðmenn voru á undan okkur að setja lög er lutu að jöfnun kynja í stjórnum úti á markaði. Þeir settu jafnframt refsiheimildir og þeim virðist hafa vegnað betur en okkur í að ná þessum árangri. Ég segi: Af hverju ættum við ekki að reyna hið sama og sjá hvort við getum þá ekki í þessu eins og svo mörgu öðru er kemur að jafnréttismálum staðið fremst meðal jafningja?

Þetta snýst nefnilega um ákveðnar valdastöður í samfélaginu og mikilvægi þess að konur séu valdar í slíkar stöður til jafns á við karla. Eins mikið og ég styð einstaklingsfrelsið styð ég líka jöfn tækifæri. Það er einfaldlega staðreynd, eins sorgleg og hún er, að konur í atvinnulífinu hafa ekki jöfn tækifæri á við karla. Þetta margumrædda glerþak er því miður staðreynd. Það er ástæðan fyrir því að of fáar konur sitja í stjórnum fyrirtækja og allt of fáar konur sitja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja eða eru forstjórar stærstu fyrirtækja á markaði. Ég held að við viljum öll breyta þessu. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að nýta krafta beggja kynja. Það sem við kunnum að vera ósammála um er hvaða aðferðum við beitum. En þá segi ég á sama tíma: Nú er ég bara orðin mjög óþreyjufull, við erum búin að bíða lengi og við getum ekki beðið endalaust.

Þess vegna styð ég þetta frumvarp. Ég er fullkomlega tilbúin að ræða mismunandi útfærslur á því ef þess er þörf og ég ætla líka að enda á þetta á slagorði gærdagsins: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu.