149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég held að mikilvægt sé að við ræðum þetta mikilvæga mál og hlustum á öll sjónarmið sem lúta að því.

Ég verð samt að viðurkenna að ég held að hv. þingmaður hafi í ræðu sinni fyrst og fremst verið að lýsa andstöðu sinni við þau lög sem eru í gildi í dag um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á markaði. Það er alveg rétt að lögin voru sett á sínum tíma til að auka hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja vegna þess að löggjafanum fannst það mikilvægt en á sama tíma voru uppi mjög skiptar skoðanir. Þá skulum við horfa á að staðan í dag er sú að í stjórnum fyrirtækja eru 74% karlar og 26% konur. Það getur seint talist býsna jafnt.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á, að lögin sem slík, eins og önnur jafnréttislög, gagnast ekki aðeins konum. Þau gagnast fyrst og fremst samfélaginu í að tryggja ákveðinn fjölbreytileika og það að við höfum bæði kyn. Ef við tökum jafnréttislögin kveða þau á um að þegar ráðinn er starfsmaður eigi að ráða starfsmann af því kyni sem færri eru af í starfsstéttinni, að því gefnu að báðir aðilar séu jafn hæfir.

Þá kem ég inn á þetta með að hæfileikaríkasta fólkið sé valið. Þegar kemur að því að velja fólk í stjórn fyrirtækja er oft verið að velja fólk sem menn þekkja og konur í stjórnum og stjórnunarstöðum þekkja frekar konur og karlar þekkja frekar karla. Það skýrir væntanlega af hverju karlar eru í svona miklum meiri hluta þegar kemur að stjórnum fyrirtækja.

Það fallega við svona lög er að þeim er ekki beint gegn öðru (Forseti hringir.) kyninu eða með hinu heldur fyrst og fremst að því að jafna hlutfall kynjanna.