149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Ég hef að vísu ekki verið mikill áhugamaður um fornbíla. Ég hef meiri áhuga á gömlum dráttarvélum, en það er annað mál og þessu óskylt. En minn skilningur er sá að fornbílar muni hér eftir greiða bifreiðagjald að óbreyttu. Þannig skil ég frumvarpið og hef skilið frá fyrstu tíð. Ég átti satt að segja von á því að það kæmu t.d. athugasemdir frá klúbbi fornbílaeigenda hér á Íslandi, en það gerðist ekki. Ég hygg að ég fari með rétt mál að eigendur fornbíla verði þá hér eftir eins og aðrir bifreiðaeigendur að greiða bifreiðagjöld.