149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

póstþjónusta.

270. mál
[15:37]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir þessi svör. Það er mjög mikilvægt að heyra það að við tryggjum þjónustuna um allt land. Raunar svaraði ráðherra þeirri spurningu sem ég var næst með varðandi það hvort póstburðargjald ætti að vera það sama um allt land. Það er greinilega tryggt og það er gott. Það er þá í samfellu og samræmi við það að við tölum um jafnrétti til búsetu um allt land.

Menn hafa verið að tala um að ef skyndilega kemur upp sú staða að það vantar varahluti, það er þurrkur og þú þarft að fá varahluti núna, þá hafa menn getað hringt og fengið varahlutinn sendan. Ég veit að það er sem betur fer ekki mjög algengt en þær aðstæður hafa komið upp. Er einhver leið til að mæta þessu?

Svo velti ég fyrir mér öðru. Í dreifðum byggðum landsins er stundum verið að keyra með einn pakka, eitt barn, einn farþega, eitthvað annað, við erum með þjónustu á ýmsan máta. Opnar þetta frumvarp möguleika á því að samþætta aðra þjónustu í sveitarfélögunum í hinum dreifðu byggðum við póstþjónustu þannig að við nýtum betur þá þjónustu sem við erum með í boði? Þá er kannski vænlegra fyrir einhverja að taka að sér þessa þjónustu ef hægt er að samþætta hana og nýta með annarri. Ég veit að það hefur verið gerð tilraun og ég held að það sé örugglega rétt hjá mér að í Borgarfirði eystra hafa menn getað samþætt og samnýtt þjónustu. Mér finnst mjög jákvætt að það sé hægt að aðlaga þetta hverju samfélagi því að þarfirnar eru vissulega mismunandi, hvað hentar á hverjum stað.

Ég vona að það gangi vel að fara yfir þetta frumvarp í nefndinni og óska henni velfarnaðar í því og legg áherslu á að við horfum á heildina við vinnslu þess og vonum að það nýtist okkur öllum sem best.