149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

póstþjónusta.

270. mál
[15:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Vil ég nefna nokkra hluti sem komu fram í ræðum þingmanna. Það hefur sennilega farið fram hjá hv. þm. Birgi Þórarinssyni að við erum ekki að láta Evrópusambandið segja okkur fyrir verkum. Þetta er ekki innleiðingarfrumvarp. Pósttilskipunin er ekki komin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Hins vegar hafa öll aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu afnumið einkarétt ríkisins á póstþjónustu, að Íslandi undanskildu, og Noregur gerði það svo dæmi sé tekið árið 2016. Einkaréttur ríkisins á póstþjónustu er barn síns tíma. Það fyrirkomulag hefur verið aflagt með öllu innan Evrópu allrar.

Á fyrri tímum tryggði einkarétturinn póstþjónustufyrirtækjum sem fengu útnefningu sem alþjónustuveitandi nægjanlegar tekjur til að standa undir landsdekkandi neti útibúa og dreifingu heim í öll hús flesta daga vikunnar. Viðvarandi fækkun bréfa og breytt eftirspurn, einkum samhliða tækniþróun, hefur leitt af sér nokkuð stöðuga hagræðingu í útibúaneti og fækkun dreifingardaga í öllum löndum Evrópu, í stað þess að hækka álögur á notendur þjónustunnar úr hófi fram eða bæta tapreksturinn með framlögum úr ríkissjóði. Nú er sú staða komin upp að verðskrárhækkanir innan einkaréttar duga tæplega til eða alls ekki við að bæta alþjónustuveitanda tekjutap sem hlýst af fækkun bréfa og óbreyttu fyrirkomulagi útburðar. Í raun er að myndast hálfgerður vítahringur þar sem fyrirséð er að bréfasendingum haldi áfram að fækka haldi gjaldskrár áfram að hækka.

Það er auðvitað ekki hægt að horfa til þess tíma, ef við horfum bara til 2008, þar sem voru 80 milljón bréf. Í dag eru það 20 milljón bréf, og enn heldur fækkunin áfram. Það var búist við 7% fækkun á þessu ári. Ef ég fer rétt með það sem ég sá í fréttum, haft eftir stjórnendum Íslandspósts, þá hefur fækkunin síðustu tvo mánuði verið 20% miðað við árið í fyrra en ekki 7%. Það er auðvitað vegna þess að við erum farin að nota allt aðra tækni í samskiptum. Það sem er verið að gera hér er að afnema þennan einkarétt, tryggja einhverja samkeppni, tryggja möguleika úti á landsbyggðinni til að nota aðrar leiðir til að búa til í það minnsta þá þjónustu sem nú er veitt eða hugsanlega betri.

Það má nefna það að í Svíþjóð er öll póstþjónusta rekin á markaðsdrifinn hátt og það þarf ekki að greiða með póstþjónustunni í Svíþjóð, henni er dreift með þeim hætti. Á hinum Norðurlöndunum hafa menn hins vegar í vaxandi mæli þurft að setja meiri og meiri fjármuni úr ríkissjóði til þess að bæta tjón alþjónustuveitandans á svæðinu.

Ísland er stórt land, dreifbýlt land, og við vorum með talsvert mörg útibú hingað og þangað, meðal annars í minni sveit var byggt upp pósthús. Stuttu eftir að það hafi verið byggt þá komu stjórnendur Póstsins, ætli það hafi ekki verið upp úr aldamótum, og vildu fara að loka því bara nokkurra ára gömlu. Það urðu auðvitað allir brjálaðir. Ég átti fund með þessum aðilum, sitjandi í sveitarstjórn á þeim tíma. Ég held það hafi verið 1,5 stöðugildi þarna, mjög gott fyrir samfélagið. Það voru hins vegar engin bréf, hv. þingmaður, það voru engir pakkar.

Ég get ekki trúað því að hv. þingmaður hafi verið að leggja það til í þessari ræðu sinni að menn haldi úti pósthúsum hringinn í kringum landið með fullt af fólki í vinnu en það væru ekki nein verkefni. (BirgÞ: Það sagði ég ekki.) Jú, mér heyrðist það. Ég varð bara að sætta mig við það að það væru ekki lengur þau verkefni sem stæðu undir þessari póstþjónustu og þessu pósthúsi. Niðurstaðan varð sú að breyta því í eitthvað annað og betra sem reyndist svo verða ráðhús sveitarfélagsins, og það voru held ég miklu betri not fyrir það hús.